Málefni tryggingafélaganna verða til umræðu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag þar sem leitað verður svara frá Fjármála- og Samkeppniseftirlitinu. Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, segist vilja vita hvaðan hagnaður félaganna kemur. Hafi iðgjöld verið hærri en nauðsynlegt var, hver eigi þá rétt á afganginum.
Fundurinn hefst klukkan eitt en klukkan þrjú verða sérstakar umræður á Alþingi um tryggingafélögin og geta fulltrúar nefndarinnar þá farið yfir svör stofnananna.
Í fyrstu stóð til að óska eftir minnisblöðum frá tryggingafélögunum en eftir umræður í nefndinni var ákveðið að gera það ekki sökum þess að nefndin hefur enga sérstaka heimild til að kalla eftir slíkum gögnum frá einkareknum félögum. Frosti bendir á að félögunum sé hins vegar frjálst að senda nefndinni allt það sem þau vilja og bætir við að þau hafi hingað til ekki verið dugleg að kynna sína hlið málsins.
Frosti segist ætla leita svara við nokkrum spurningum og þá meðal annars hvort þessu stóru tryggingafélög teljist kerfislega mikilvæg og hvort þeim gæti þurft að bjarga á kostnað ríkissjóðs, líkt og áður gerðist, lendi þau í vandræðum.
Þá segist hann ætla að spyrja Fjármálaeftirlitið hvort tilefni sé til að gera ríkari kröfur til eiginfjár en gert er í Evrópusambandinu vegna þess að félögin séu kerfislega mikilvæg. „Við ætlum að reyna átta okkur á því með FME hver rót hagnaðarins er og hvaðan hann kemur. Er hann uppruninn hjá hluthöfum og fjármagninu sem þeir lögðu fram eða hjá iðgjöldum sem viðskiptavinir hafa greitt í gegnum tíðina,“ segir Frosti.
„Hafi þau iðgjöld verið hærri en nauðsynlegt var, hver á þá rétt á þeim fjármunum, þurfi þeir ekki lengur að vera fyrir hendi í félaginu,“ segir Frosti.
Með Samkeppniseftirlitinu stendur til að fara yfir stöðuna á markaðnum þegar viðskiptavinir geta ekki snúið sér annað þegar þeim er miðsboðið þar sem félögin hegða sér öll eins. Hvað sé þá til ráða og hvort Samkeppniseftirlitið hyggist gera eitthvað í málinu.