Kamprad kaupir fötin á flóamarkaði

Ingvar Kamprad
Ingvar Kamprad AFP

Hann er kannski stofnandi Ikea og einn ríkasti maður heims. En ein af ástæðum þess að hann er svo efnaður er að hann fer vel með peninga. Ingvar Kamprad kaupir til að mynda fötin sín á flóamörkuðum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í heimildarmynd sem sýnd var í sænska sjónvarpinu í gærkvöldi.

Kamprad verður níræður 30. mars og stofnaði Ikea vöruhúsið árið 1943 eða fyrir 73 árum. Eitt af því sem hefur gert Ikea að því stórveldi sem fyrirtækið er má rekja til þess lága vöruverðs sem alltaf hefur einkennt Ikea.

„Ég held að ég gangi ekki í neinu sem ekki var keypt á flóamarkaði. Þetta sýnir að ég vil gefa gott fordæmi,“ segir Kamprad í viðtali við TV4.

„Það er í eðlia íbúa Smálanda að sýna aðhaldssemi,“ segir Kamprad en hann kemur þaðan og þar setti hann Ikea á laggirnar.

Í sænskum fjölmiðlum kemur fram að eignir Kamprads séu metnar á 610 milljarða sænskra króna sem svarar til 9.300 milljarða íslenskra króna. Mjög erfitt er hins vegar að greina hvað tilheyri honum sjálfum, börnum hans og hvað sé í sameiginlegum sjóði fjölskyldunnar í skattaparadísinni Liechtenstein.

Kamprad hefur áður komist í fréttirnar fyrir aðhaldsemi en árið 2008 sagði hann í viðtali við Sydsvenskan reikningur frá rakaranum upp á 22 evrur í Hollandi sé of há fjárhæð. „Venjulega læt ég klippa mig þegar ég er í þróunarríki. Síðast var það í Víetnam,“ sagði Kamprad í viðtalinu.

Árið 1973 flúði Kamprad skatta í heimalandinu til Danmerkur og þaðan flutti hann til Sviss þar sem skattar eru enn lægri. Hann hefur frá árinu 2010 verið að draga sig í hlé frá daglegum rekstri Ikea og hafa synir hans þrír tekið við rekstrinum. Árið 2014 flutti hann síðan lögheimili sitt til Svíþjóðar.

Frétt The Local

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK