Verslunarrýmið ekki fyrir lundabúðir

Canopy Reykjavík mun vísa út á Hverfisgötu og inn í …
Canopy Reykjavík mun vísa út á Hverfisgötu og inn í Hjartagarðinn. Verslunarhúsnæðið sem um ræðir verður meðal annars í gráa og gula húsinu til vinstri á þessari mynd sem og í hornhúsinu til hægri, þar sem nú er Celtic cross. Mynd/ARKÞing

Icelandair hotels auglýstu í vikunni eftir leigjendum í húsnæði við svokallaðan Hljómalindarreit milli Laugavegs og Hverfisgötu. Verið er að taka reitinn í gegn í heild, en þar verður meðal annars um 115 herbergja hótel sem gengur undir nafninu Canopy Reykjavík. Í auglýsingunni kemur fram að vilji eigenda sé að „leyfa sérkennum miðbæjarins að halda sér, efla mannlífið og bjóða gestum okkar að skynja borgina utan við póstkort og minjagripabúðir.“

Hildur Ómarsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Icelandair hotels, segir í samtali við mbl.is að viðbrögð við auglýsingunni hafi verið mjög mikil hingað til en það sé vilji hótelsins og eiganda eignanna, verktakafyrirtækisins Þingvangs, að gera umgjörð á reitnum þannig að bæði Reykvíkingar og erlendir ferðamenn vilji sækja þangað.

Séð yfir Hljómalindarreit frá Laugavegi til austurs.
Séð yfir Hljómalindarreit frá Laugavegi til austurs.

Eins og uppleggið í auglýsingunni ber með sér horfa Icelandair hotels og eigandi eignarinnar til þess að þar séu ekki hefðbundnar ferðamannaverslanir. Hildur staðfestir það í samtali við mbl.is. „Við höldum að það megi alveg bæta við fleiru en lundabúðum,“ segir hún og bætir við að það verði gerðar kröfur um þær verslanir eða þjónustu sem verði á boðstólnum í plássunum.

Í auglýsingunni er bent á dæmi um starfsemi sem eigendurnir eru spenntir fyrir. „Við fögnum litadýrð og sköpunargleði sem brýst fram í ferskum mat, fallegu handverki og frumlegum hugsunum,“ segir þar. Hildur tekur undir þetta og segir að t.d. gæti verið mjög gaman að sjá sælkerabúð eða handverk á staðnum. Aðspurð hvort horft væri jákvæðum augum á stærri verslanir eða verslanakeðjur sem hafa oft sett sterkan blæ á miðbæi erlendis segir Hildur að það sé vel inni í myndinni.

Hljómalindarreiturinn úr lofti síðasta sumar. Uppbyggingin felur í sér verulega …
Hljómalindarreiturinn úr lofti síðasta sumar. Uppbyggingin felur í sér verulega þéttingu byggðar á grónu svæði í miðborginni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hildur rifjar upp að Hverfisgatan hafi áður verið mikil verslunargata. Minnist hún meðal annars á Lúllabúð sem var þar í um 60 ár, eða frá árinu 1939 til 2000. „Mikið lifandi væri gaman ef einhver nýr Lúlli myndi skjóta upp kollinum,“ segir hún aðspurð um hvernig stemningu verið sé að leita að.

Rýmin fimm eru á mismunandi stöðum á reitnum. Stærsta þeirra (rautt á myndunum) er 339 fermetrar að stærð og vísar út á Klapparstíg og inn í Hjartagarðinn sem verður opinn fyrir almenningi. Næst stærsta rýmið (blátt)  er þar við hlið en það er 259 fermetrar að stærð. Aðeins verður innangengt þangað úr Hjartagarðinum. Bæði þessi rými eru á tveimur hæðum.

Næst þar á eftir koma tvö rými sem vísa bæði út á Hverfisgötu og inn í Hjartagarðinn. Það stærra (grænt) er á tveimur hæðum auk kjallara og er heildarstærð þess 237 fermetrar. Minna rýmið (brúnt) er 136 fermetrar að stærð og er svipað að stærð og lögun og fyrra rýmið ef frá er talið að það skortir kjallararýmið.

Minnsta rýmið (gult) er svo á horni Smiðjustígs og Hverfisgötu, þar sem nú er ölkráin Celtic cross. Telur það 97 fermetra á aðalhæð kráarinnar.

Grunnmynd af Hljómalindareitnum - kjallari.
Grunnmynd af Hljómalindareitnum - kjallari. Mynd/ARKÞing
Grunnmynd af Hljómalindareitnum - 1. hæð.
Grunnmynd af Hljómalindareitnum - 1. hæð. Mynd/ARKÞing
Grunnmynd af Hljómalindareitnum - 2. hæð.
Grunnmynd af Hljómalindareitnum - 2. hæð. Mynd/ARKÞing

Með því að beina umferð verslana inn í garðinn segir Hildur að þar geti orðið frábært tækifæri til að mynda fjölbreytt líf bæði fyrir Reykvíkinga og ferðamenn. „Með þessu erum við að benda á að það eru tækifæri í uppbyggingu með að skapa miðborg Reykjavíkur þannig að þar sé líf og fólk vilji sækja þangað verslun og þjónustu,“ segir Hildur.

Miklar framkvæmdir hafa verið undanfarið á reitnum, en í þeim fjórum húsum sem vísa út að Hverfisgötu og eru ekki ætlað undir verslunarplássið sem nú er auglýst til leigu verður Canopy Reykjavík hótelið. Áformað er að hótelið opni á fyrri hluta þess árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka