Fjármálaráðherra telur að löggjafinn ætti ekki að skipta sér af því hvort fyrirtæki deili því sem umfram verður af rekstri með viðskiptavinum. „Ég held að Alþingi geti ekki stigið slíkt skref. Það er of mikil forsjárhyggja og of mikil afskipti af atvinnulífinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, við sérstakar umræður um tryggginafélögin á Alþingi í dag.
Bjarni og aðrir þingmenn sem tóku til máls hrósuðu Sjóvá og VÍS fyrir að hlusta á almenning og lækka fyrirhugaðar arðgreiðslur. „Mér finnst þetta mál í heild sinni vera áminning um það að atvinnulífið þurfi að átta sig betur á því að við stöndum öll saman í því að endurheimta traust almennings í landinu,“ sagði hann.
„Að menn telji það geta gengið á Íslandi í dag að hækka á sama tíma iðgjöld á lögboðnum tryggingum og taka út margra ára hagnað. Það gengur einfaldlega ekki upp og engin þolinmæði er fyrir því,“ sagði Bjarni.
Hann sagði löggjafann þó varla geta tekið fram fyrir hendur einkarekinna fyrirtækja og skipt sér af ráðstöfun hagnaðar. Hann nefndi bankana, hvort þeir mættu þá ekki að greiða úr arð fyrr en vextir væru lækkaðir, eða hvort flutningafyrirtæki þyrfti að lækka gjaldtöku sína áður en hagnaði væri ráðstafað eða hvort olíufélögin þyrftu fyrst að lækka bensínverð.
Þá sagði Bjarni að lokum mikilvægt að villandi skilaboð berist ekki frá Alþingi. „Eins og þegar menn eru að segja að verið sé að hola félögin að innan. Það er ekki svo. Það hefur verið staðfest af Fjármálaeftirlitinu að tryggingafélögin hefðu staðist gjaldþolsmælingar þrátt fyrir arðgreiðslurnar. Þetta er grundvallaratriði,“ sagði Bjarni.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði mikilvægt að tryggja að umrædd félög endurtaki ekki leikinn þrátt fyrir að hafa breytt sínum áformum í þetta skipti. „Þetta skilur eftir spurningu um hvað eigi að gera í framhaldinu,“ sagi hann. „Ég er ekki viss um að þetta fólk hafi skipt um skoðun,“ sagði Steingrímur og vísaði til þess að sama hugarfar og hafi verið allsráðandi í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun væri snúið aftur. Sá tími sé hins vegar ekki runninn upp hjá almenningi. Það hafi síðustu dagar og vikur sýnt.
Steingrímur spurði hvort það væri ekki athugunar virði að setja í lög ákvæðu um að tryggingafélög þurfi að deila hluta þess sem umfram verður í bótasjóði með viðskiptavinum.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, tók undir þetta og sagði það vera sanngjarna kröfu að viðskiptavinir njóti ágóðans af tryggingastarfsemi ásamt hluthöfum.