Alls hefur 21 leigubílstjóri hjá Uber í Stokkhólmi og Gautaborg verið fundinn sekur um að akstur án heimildar. Þetta kemur fram í frétt Dagens Nyheter. Þar segir að Uber haldi því fram að starfsemi þeirra í Svíþjóð snúist um að deila bílum og þurfi því ekki á sérstöku leyfi að halda til leigubílaaksturs. En sænskir dómarar eru þar á öðru máli, samkvæmt frétt DN.
Einn bílstjóri sem var dæmdur nýverið segir í viðtali við blaðið að á meðanUber sleppi þá séu það bílstjórarnir sem taki skellinn. Lögreglan telur aðUber elti uppi bílstjóra sem eru nýkomnir til landsins og þekki ekki lög sem gilda varðandi leigubílaakstur og eru í vandræðum með að fá atvinnu.
Framkvæmdastjóri Uber í Svíþjóð, Alok Alström, harðneitar því og segir þessar ásakanir ekki á rökum reistar og séu óviðeigandi. Það sé mat Uber að fyrirtækið fari að lögum.
Fyrsti bílstjórinn var dæmdur í september í fyrra en það var ökumaður í Stokkhólmi sem var gert að greiða sekt upp á 2500 sænskar krónur. Flestir bílstjóranna hafa áfrýjað niðurstöðunni.