Elmar Hallgríms Hallgrímsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá 365.
Elmar er með LL.M gráðu frá University of Pennsylvania og embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur lokið meistaranámi í fjármálum fyrirtækja og í viðskiptasiðfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur Elmar einnig lokið prófi í verðbréfasviðskiptum og hefur leyfi til að starfa sem héraðsdómslögmaður.
Elmar er kvæntur Svandísi Rún Ríkarðsdóttur og eiga þau tvö börn.
Elmar er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands þar sem hann kennir m.a. fjármál, lögfræði, samningatækni, sáttamiðlun, viðskiptasiðfræði og stjórnarhætti fyrirtækja. Elmar hefur einnig undanfarið starfað hjá Arion banka og sem þjálfari hjá Dale Carnegie.
Elmar er þá einnig stjórnarformaður MBA náms Háskóla Íslands og viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands. Þá hefur hann m.a. setið í stjórn Samkeppniseftirlitsins, LÍN og ýmissa lífeyrissjóða.
Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs 365, lét af störfum í byrjun árs eftir að hafa starfað í fimm mánuði hjá fyrirtækinu.
Frétt mbl.is: Hættir hjá 365 eftir fimm mánaðu í starfi