„Ég ítreka að málefni mín og Landsbankans hafa verið rannsökuð í þaula af þar til bærum yfirvöldum og ekki talin ástæða til aðgerða í nokkru þeirra,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson í tilefni af frávísun Héraðsdóms Reykjavíkur á hópmálsókn sem fyrrverandi hluthafar í Landsbankanum höfðuðu gegn honum.
Ekki var talið að sýnt fram á tjón félagsmanna.
Hópmálsókninni var vísað frá í vikunni en lögmaður málsóknarfélagsins hyggst kæra niðurstöðuna til Hæstaréttar.
Á heimasíðu Björgólfs segist hann hafa gert upp allar sínar skuldir við Landsbankann og sé bankinn því skaðlaus af viðskiptum við hann. Slitastjórn hafi þá staðfest að bankinn eigi engar kröfur á hann. Misfærslum í skýrslu rannsóknarnefndar hafi hann svarað ítarlega „enda hef ég ekkert saknæmt unnið,“ segir Björgólfur.