Svokallaður „bótasjóður“ ekki til

VÍS og Sjóvá breyttu arðgreiðsluáformum sínum eftir mikla gagnrýni.
VÍS og Sjóvá breyttu arðgreiðsluáformum sínum eftir mikla gagnrýni. Samsett mynd

Fjármálaeftirlitið segir að hugtakið „bótasjóður“ hafi ekki verið til í íslenskum lögum í 22 ár og bendir á að vátryggingaskuld sé iðulega ofmetin í efnahagsreikningum tryggingafélaga. 

FME hefur birt yfirlýsingu undir yfirskriftinni „Til glöggvunar varðandi vátryggingafélög og svokallaða „bótasjóði“ vegna umræðu síðustu vikna.

Þar er bent á að í umræðunni hafi verið vísað í yfir 20 ára gömul blaðaviðtöl við þáverandi forstjóra vátryggingafélaga þar sem því er haldið fram að bótasjóður sé „eign“ tjónþola eða vátryggingartaka.

„Rétt er að taka fram að hugtakið „bótasjóður“ hefur hvorki verið notað í lögum um vátryggingastarfsemi né reikningsskilum vátryggingafélaga eftir 1994, þegar samevrópsk löggjöf um vátryggingastarfsemi var innleidd. Hugtakið „bótasjóður“ var tekið úr lögunum og hugtökin „vátryggingaskuld“  og „eignir til jöfnunar vátryggingaskuldar“ voru kynnt,“ segirFME.

Bæta álagi á vátryggingaskuldina

Þá segir að vátryggingaskuld sé á skuldahlið í efnahagsreikningi vátryggingafélaga og reiknuð þannig út að hún eigi að samsvara óuppgerðum heildarskuldbindingum vegna gerðra samninga um vátryggingar.

Hluti af heildareignum vátryggingafélaga sé ætlaður til að vega á móti vátryggingaskuldinni og eru þær notaðar þegar greiða þarf út tjón.

Mat á vátryggingaskuld taki tillit til áætlaðra tjóna og byggi á upplýsingum um tjónatíðni og kostnað vegna tjóna í fortíðinni.

Hingað til hafi lög ekki mælt fyrir um samræmda aðferð við útreikning á vátryggingaskuld og hafi vátryggingafélögin fram til þessa bætt nokkuð háu álagi á vátryggingaskuldina til að tryggja að þau eigi nægar eignir á móti til að greiða út tjón.

Viðskiptavinir eiga enga kröfu á félagið

Í yfirlýsingu FME er einnig farið yfir félagaform vátryggingafélaga og bent á að öll íslensku félögin séu rekin í hlutafélagaformi. Þau séu fjármögnuð af hluthöfum sem geri kröfu um að fjármögnunin skili ávöxtun. Viðskiptavinir félaganna eigi ekki kröfu á þau, frekar en önnur hlutafélög, nema þeir hafi lent í tjóni.

Þá segir einnig að það sé á ábyrgð stjórna vátryggingafélaganna að tryggja orðspor félaganna haldist gott, en það geri þau best með því að huga bæði að hagsmunum viðskiptavina og fjárfesta.

„Þær þurfa að ákvarða með hvaða hætti vátryggingafélögin láta viðskiptavini sína njóta góðs af hagnaði sínum. Þetta á við hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingastarfsemi,“ segir FME.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK