Kona sem greip til þess að selja íbúðina sína til þess að eiga fyrir sjúkrakostnaði vegna krabbameinsmeðferðar þarf að greiða tæplega 10% uppgreiðslugjald til Íbúðalánasjóðs þegar hún gengur frá láni sínu. Um 9.600 lán hjá sjóðnum bera uppgreiðslugjöld er geta numið milljónum króna.
Útlánavextir hjá bönkunum eru almennt lægri en meðalvextir Íbúðalánasjóðs sem öll bera fasta vexti og getur því töluverður hvati verið til uppgreiðslna. Það getur hins vegar reynst kostnaðarsamt.
Árið 2013 var 1% hámark sett á uppgreiðsluþóknanir og á það við um samninga sem gerðir eru eftir 1. nóvember sama ár. Uppgreiðslugjald lána sem Íbúðalánasjóður veitti frá nóvember 2005 og fram að þessum tíma jafngildir hins vegar mismuninum á vaxtastigi þess láns sem greitt er og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði, miðað við núvirtar uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins fram á lokagjalddaga.
Eftir því sem vaxtamunur er meiri og lánstími lengri verður gjaldið hærra. Uppgreiðslugjald þessara lána er ekki skilgreint sérstaklega en af 63.000 lánum Íbúðalánasjóðs eru um 9.700 lán með þessu fyrirkomulagi, eða um fimmtán prósent.
Uppgreiðslugjaldið kom inn með breytinum á lögum nr. 120/2004 og var Íbúðalánasjóði þá veitt heimilt til þess að bjóða viðskiptavinum sínum lán með lægri vöxtum en ella, gegn því að þeir afsöluðu sér heimild til þess að greiða láninð upp nema gegn greiðslu sérstaks uppgreiðslugjalds.
Anna Khanti Axelsdóttir er frá Srí Lanka en flutti til Íslands fyrir átján árum. Hún tók tólf milljóna króna lán hjá Íbúðalánasjóði árið 2008 með 4,90% vöxtum. Í lok febrúar óskaði hún eftir því að fá að greiða lánið upp og í dag stendur uppgreiðsluverðið í 15,4 milljónum króna en uppgreiðsluþóknunin nemur 1,4 milljónum króna eða tæplega 10%.
Anna starfaði á sambýli fyrir fjölfatlaða á vegum Hafnafjarðarbæjar en þurfti að hætta störfum sökum heilsufarsvandamála á síðastliðnum tveimur árum. Hnén hafa verið slæm og hefur hún þurft að fara í þrjár aðgerðir vegna þessa auk þess að hafa verið á biðlista fyrir hnjáskiptiaðgerð.
Hún byrjaði að vinna aftur í sumar og átti þá ekki mikinn veikindarétt eftir vandamál síðustu ára. Fyrir stuttu greindist hún með brjóstakrabbamein og hefur orðið fyrir miklum kostnaði vegna rannsókna, læknisheimsókna og lyfja. Anna átti ekki mikinn varasjóð á þessum tímapunkti vegna þess að tekjur hennar hafa einnig farið til skyldmenna erlendis. Greip hún því til þess að selja íbúðina sína og reiknar með að fá um 21 milljón króna fyrir. Eftir að hafa greitt upp lánið og uppgreiðslugjaldið nema eftirstöðvarnar sem hún fær um fjórum milljónum króna.
Anna talar lélega íslensku og var hún ennþá verri á þeim tíma sem hún tók lánið. Hún fullyrðir að ákvæðið um uppgreiðslugjald hafi ekki verið kynnt sérstaklega fyrir henni við lántökuna og segist ekki hafa notið aðstoðar þýðanda. Hafði hún því ekki hugmynd um að fjárhæðin gæti orðið svona há.
Anna hefur reynt að semja um fjárhæð uppgreiðslugjaldsins en Íbúðalánasjóður gefur sig ekki. Að sögn Bárðar Sigurgeirssonar, sem hefur hjálpað Önnu í gegnum tíðina, mun Anna á næstunni greiða upp lánið með fyrirvara um að óskað verði eftir leiðréttingu hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Þá vísar hann til 36. greinar samningalaga er kveður á um ógildingarheimild þegar samningar teljast andstæðir góðri viðskiptavenju og bendir á að við mat á á slíku máli komi staða samningaaðila og styrkur þeirra auk sérfræðiþekkingar til skoðunar. „Það er spurning hvort jafnræði hafi verið á milli þeirra þegar þessi stóra og sterka stofnun veitti lánið og hvort upplýsingagjöfin hafi verið nægileg,“ segir Bárður.
Sambærilegt mál rataði fyrir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála árið 2012 en þar kærði lánþegi 3,36% uppgreiðsluþóknun. Nefndin staðfesti ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að synja um niðurfellingu uppgreiðsluþóknunarinnar.
Í úrskurði nefndarinnar segir að kostnaður Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu felist í mismun þeirra vaxta sem hefðu fengist endranær og þeim vöxtum sem munu fást vegna endurláns þess fjármagns sem greitt er inn á lán. Talið var að uppgreiðslufjárhæðin væri ekki hærri en sem nam kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslunnar.
Hvað upplýsingagjöf varðar er tekið fram að í skilmálum skuldabréfsins komi fram að skuldari afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga án þóknunar. Hér verði að telja að um sé að ræða yfirlýsingu.
Líkt og áður segir talar Anna þó ekki íslensku og fullyrðir að starfsmenn sjóðsins hafi ekki bent sér á ákvæðið.
Áður en niðurstaða fékkst í málið var fjallað um efnið í ársreikningi Íbúðalánasjóðs árið 2012. Þar segir að lagaleg óvissa ríki um uppgreiðslugjaldið og ef gjaldtakan yrði talin ólögmæt vegna skorts á upplýsingagjöf yrði sjóðurinn berskjaldaður fyrir uppgreiðslum þar sem hann hafi ekki heimild til að greiða upp eigin lántökur á móti. Er talað um að lán sjóðsins með þessu ákvæði hafi í árslok 2012 numið um 141 milljarði króna.
Í skýrslu sem KPMG, Analytica og EC Consulting skiluðu til verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála á árinu 2014 er komið inn á þessar uppgreiðsluþóknanir.
Er þar bent á að vaxtastig á húsnæðislánamarkaði sé það sem hafi mest áhrif á uppgreiðslur lána. Útlánavextir hjá bönkunum séu lægri en meðalvextir íbúðalána Íbúðalánasjóðs sem öll bera fasta vexti. Því sé töluverður hvati til uppgreiðslna fyrir hendi.
Þá segir að gera megi ráð fyrir að við kerfisbreytingu á húsnæðislánakerfinu að nýjar húsnæðislánastofnanir reyni að ná fótfestu á markaðinum og markaðshlutdeild með kröftugri markaðssetningu.
Þetta gæti haft í för með sér auknar uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs sem getur reynst mjög kostnaðarsamt fyrir 9.600 lánþega.