Skúli Mogensen er kominn út úr stjórn Kviku en hann á 7,2% hlut í bankanum. Móðir hans, Anna Skúladóttir, löggiltur endurskoðandi, hefur hins vegar tekið sæti hans.
Ítarlegt viðtal við Skúla er í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar en þar er bent á að Skúli sé ennþá hluthafi í nokkrum öðrum fyrirtækjum þrátt fyrir að mesta orkan fari í uppbyggingu WOW. Skúli er t.d. hluthafi í Kviku sem var áður MP banki sem Skúli tók þátt í að endurreisa eftir heimkomuna frá Kanada eftir hrun.
Hann er nú farinn út úr stjórn bankans þar sem allur tími hans fer í WOW air. Móðir hans, Anna Skúladóttir, hefur tekið sæti hans, en hún er varamaður í stjórn Títans, fjárfestingarfélags Skúla, sem fer með hlut hans í Kviku sem nemur um 7,23%.
„Ég er heppinn að geta treyst á móður mína en hún er löggiltur endurskoðandi og verður góður fulltrúi í stjórn bankans,“ segir Skúli.
Anna er starfandi ráðgjafi í fjármálum og endurskoðun og var um árabil fjármálastjóri hjá Reykjavíkurborg ogOrkuveitu Reykjavíkur og situr núna í stjórn HS Orku og Bláa Lónsins.