Bjarni: Græddi ekki á staðsetningunni

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála og efna­hags­ráðherra, seg­ist ekki hafa grætt á því að fé­lag sem hann átti þriðjungs­hlut í hafi verið skráð á Seychell­es-eyj­um frek­ar en á öðrum stað í heim­in­um. Hann hafi fyr­ir mis­skiln­ing gefið upp að fé­lagið væri skráð í Lúx­em­borg. Þetta seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

Í yf­ir­lýs­ingu sem Bjarni birti á Face­book í gær seg­ist hann að hafa staðið í þeirri trú að fé­lagið, Fal­son & Co., ætti varnaþing í Lúx­em­borg en mis­skiln­ing­ur­inn hafi ekki áhrif í skatta­legu sam­hengi.

Þá sagði hann einnig að eini til­gang­ur fé­lags­ins hafi verið að halda utan um eign í Dubai en að svo hafi farið að hann og viðskipta­fé­lagi hans hafi aldrei tekið við henni. Ákveðið hafi verið að ganga út úr kaup­un­um árið 2008 og árið 2009 hafi málið verið gert upp með tapi og fé­lagið sett í af­skrán­ing­ar­ferli.

„Það hafði eng­ar tekj­ur, skuldaði ekk­ert, tók aldrei lán, átti eng­ar aðrar eign­ir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starf­semi. Við gild­is­töku reglna um hags­muna­skrán­ingu þing­manna átti ég því hvorki hlut í fé­lagi í at­vinnu­rekstri né aðrar fast­eign­ir en hús­næði til eig­in nota,“ sagði Bjarni í yf­ir­lýs­ing­unni.

Gaf Lúx­em­borg upp fyr­ir mis­skiln­ing

Hvernig get­ur verið að þú haf­ir ekki vitað af staðsetn­ingu fé­lags­ins?

„Það sem ég hef sagt frá er að þarna var um að ræða kaup á fast­eign í Dubai. Áður en ég kem að mál­inu hafði verið komið upp fé­lagi. Ég kom ekki að stofn­un fé­lags­ins og augu mín voru fyrst á fjár­fest­ing­unni sem slíkri, ekki kannski á þessu fyr­ir­komu­lagi sem hafði verið ákveðið áður en ég kom að mál­inu. Þetta er bara þannig en kaup­in á fé­lag­inu, jú, komu fram á minni skatt­skýrslu,“ seg­ir Bjarni.

Mátti sjá á upp­lýs­ing­um á skatt­skýrsl­unni að fé­lagið væri ekki í Lúx­em­borg?

„Það sem ég geri grein fyr­ir í minni skatt­skýrslu er fjár­hæðin sem ég hef varið til kaup­anna, heitið á fé­lag­inu og fyr­ir mis­skiln­ing gaf ég það upp að fé­lagið væri skráð í Lúx­emburg, eins og ég hef sagt frá,“ seg­ir Bjarni.

„Það er allt til­komið vegna þess að Lands­bank­inn í Lúx­emburg hafði komið fé­lag­inu á fót og það var búið að ganga frá öll­um þeim forms­atriðum þegar ég kom að mál­inu.“

Þú nefnd­ir í yf­ir­lýs­ing­unni að þú hefðir verið spurður um málið í Kast­ljós­inu í fe­brú­ar 2015 og sagðist aðspurður ekki hafa átt nein­ar eign­ir eða viðskipti í skatta­skjól­um. Kannaðir þú það sér­stak­lega fyr­ir eða eft­ir viðtalið til að hafa þetta á hreinu?

„Nei, ég gerði það ekki. Það var ekki til­efni til þess fyr­ir þetta viðtal. Það verður líka að skoða mál­in í því sam­hengi sem var verið að ræða mál­in í 2015. Við vor­um á þeim tíma að vinna í því að afla upp­lýs­inga vegna hætt­unn­ar á því að fólk hefði skotið skatt­skyld­um tekj­um eða eign­um und­an skatt­lagn­ingu á Íslandi. Þegar ég er spurður að því hvort ég hafi stundað eitt­hvað slíkt þá er svarið við því ósköp ein­falt, það er alls ekki þannig,“ seg­ir Bjarni.

„Þegar spurt er sér­stak­lega að því hvort ég hafi átt eign­ar­hlut í fé­lagi á svo­kölluðu af­l­ands­svæði þá gerði ég mér ekki grein fyr­ir því að, eins og ég er búin að segja, gerði mér ekki grein fyr­ir því að þetta fé­lag sem ég hafði átt í fram til árs­ins 2009, að það hefði verið skráð á slíku svæði. Það hafði enga þýðingu í sjálfu sér,“ seg­ir Bjarni.

Er hægt að segja að þú haf­ir grætt á því að hafa þetta fé­lag þarna, á Seychell­es-eyj­um, frek­ar en ann­arsstaðar?

„Nei, ekki á neinn hátt.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK