Gjaldþrotaskiptum hjá Lindu Pétursdóttur verður lokið í apríl en að sögn skiptastjóra nemur heildarupphæð krafna alls 56 milljónum króna. Engar eignir eru í búinu og mun því ekkert fást upp í kröfur.
Linda Pétursdóttir, fyrrverandi eigandi Baðhússins, var úrskurðuð gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness hinn 12. nóvember sl.
Stærsti kröfuhafinn er fasteignafélagið Reginn með tæplega 23 milljóna króna kröfu. Skiptafundur fer fram mánudaginn 4. apríl og verður skiptunum þá lokið að sögn skiptastjóra.
Líkt og fram hefur komið var Baðhúsinu lokað í desember á síðasta ári og sagði Linda að rekstrargrundvellinum hefði verið kippt undan fyrirtækinu þegar loforð um afhendingartíma á nýju húsnæði í Smáralind voru svikin. Auk þess hefði húsnæðið verið hálfklárað við afhendingu og iðnaðarmenn sífellt andandi ofan í hálsmálið á viðskiptavinum.
Fasteignafélagið Reginn er eigandi húsnæðisins.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði aftur á móti í samtali við mbl að samningnum við Baðhúsið hefði verið rift vegna vanefnda. Hann sagði Regin hafa staðið við alla gerða samninga.
Baðhúsið var úrskurðað gjaldþrota í janúar sl. og var skiptum lokið í lok ágúst. Heildarkröfur námu 181,6 milljónum króna og fékkst um 2,1 milljón króna greidd upp í þær.