Ætla að farga öllum Aliexpress-treyjum

Oliver Sigurjónsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Rakel Hönnudóttir í nýju búningunum.
Oliver Sigurjónsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Rakel Hönnudóttir í nýju búningunum. Ljósmynd/KSÍ

Á sjötta hundrað íslenskar landsliðstreyjur hafa verið pantaðar í gegnum kínversku netsíðuna Aliexpress af 38 söluaðilum samkvæmt talningu mbl. Þar kosta treyjurnar allt frá 1.900 krónum og upp í 3.000 krónur. Formlegu íslensku treyjurnar sem framleiddar eru af Errea kosta hins vegar 11.990 krónur.

Ef miðað er við þessar sex hundruð treyjur má segja að Errea hafi farið á mis við rúmlega sjö milljóna króna sölu. Nýir landsliðsbúningar voru afhjúpaðir hinn 1. mars sl. og eru þeir framleiddir af ítalska fyrirtækinu Errea. Búningasamningurinn milli KSÍ og Errea er sá langstærsti hingað til en hann er til fjögurra ára og metinn á um 100 milljónir króna að því er Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við fótbolta.net.

Skömmu eftir að búningarnir voru kynntir fóru hins vegar eftirlíkingar í sölu á kínversku netsíðunni og virðast þeir afar vinsælir samkvæmt pöntunarstöðunni.

Tap Errea og KSÍ

Þorvaldur Ólafsson, eigandi Errea á Íslandi, segir tapaða sölu fyrst og fremst vera tap Errea en bendir á að KSÍ fái þó hluta af söluandvirðinu og fer hluturinn eftir fjölda seldra búninga. Hlutur KSÍ er ekki gefinn upp ef Þorvaldur segir fjöldann skipta máli.

„Það er ekki verið að styðja landsliðið með þessu,“ segir Þorvaldur og bendir á að vinnuaðstæður þeirra er selja búningana á Aliexpress séu heldur ekki þekktar. 

KSÍ og Errea hafa ásamt lögfræðingi sínum undanfarið átt í viðræðum við póstinn og tollyfirvöld um lausn á málinu. „Það er mjög líklegt að þetta verði allt stoppað og því fargað í tollinum,“ segir Þorvaldur og bendir á að fólk þurfi að framvísa kvittunum frá Aliexpress þegar sending er sótt á pósthús. Þar komi fram um hvaða vöru sé að ræða.

„Þá hefur pósturinn leyfi til þess að stoppa sendinguna og opna pakkann. Það er hönnunarvernd á treyjunni og þá má farga henni,“ segir hann.

Kært fyrir magninnflutning

Ef það kemst síðan upp að einhver sé að flytja þessar treyjur inn í miklu magni í hagnaðarskyni gæti sá hinn sami verið kærður fyrir brot á lögum um höfundarrétt. Viðkomandi þyrfti þá að greiða fyrir förgunina og Þorvaldur vísar til þess að fordæmi séu fyrir þessu.

„Tollyfirvöldum á Íslandi er mjög umhugað um að standa sig og þykja standa sig vel á skandinavískan mælikvarða. Þeir vilja að hlutirnir séu gerðir rétt og ég er því mjög vongóður um þetta samstarf,“ segir hann.

Salan fer vel af stað

Þorvaldur segir söluna á formlegu landsliðsbúningum annars hafa gengið mjög vel, bæði á Íslandi og erlendis. Bæði er mikið keypt í erlendum verslunum og eins í netverslun. Hann segir söluna hafa verið góða í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Japan, Ástralíu og Skandinavíu.

Íslenska landsliðstreyjan hefur árum saman verið til sölu erlendis en Þorvaldur segir hana aldrei hafa verið svona mikla. 

Fjölmargir eru að selja eftirlíkingar af íslensku landsliðstreyjunum á Aliexpress.
Fjölmargir eru að selja eftirlíkingar af íslensku landsliðstreyjunum á Aliexpress. Skjáskot af Aliexpress
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson með nýju landsliðstreyjuna.
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson með nýju landsliðstreyjuna. Ljósmynd/KSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK