Slakur tryggingarekstur á Íslandi

Hagnaður íslensku tryggingafélaganna er að langmestu leyti tilkominn vegna tekna …
Hagnaður íslensku tryggingafélaganna er að langmestu leyti tilkominn vegna tekna af fjárfestingarstarfsemi. Því er öfugt farið á hinum Norðurlöndunum. Samsett mynd

Arðgreiðslustefnur íslensku tryggingarfélaganna eru eðlilegar að sögn greiningardeildar Capacent. Tryggingarekstur félaganna mætti hins vegar vera ábátasamari og er slakur í samanburði við önnur norræn félög. Reksturinn byggir á fjárfestingartekjum sem ekki er hægt að treysta á.

Þetta kom fram á morgunfundi greiningardeildarinnar um tryggingafélögin. Starfsemi félaganna má skipta í tvennt, þ.e. trygggina- og fjárfestingastarfsemi. Umhverfið á Íslandi er sérstakt í samanburði við Norðurlöndin þar sem hið svokallaða samsetta hlutfall er jafnan mun hærra hér á landi.

Samsetta hlutfallið segir til um hvort greidd iðgjöld dugi fyrri rekstri félagsins og tjónakostnaði. Ef hlutfallið fer yfir 100% duga iðgjöldin ekki fyrir þessu og fjárfestingartekjurnar verða þar með nauðsynlegur þáttur.

Á Íslandi er hlutfallið iðulega yfir 100% og það þýðir einfaldlega að iðgjöldin duga ekki fyrir tjónum og rekstri. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið hins vegar oftast í kringum 80%.

Erfitt er að segja fyrir um ástæður þessa en stærðarhagkvæmni er líklega stór þáttur auk þess sem tryggingar geta einfaldlega verið dýrari í öðrum löndum. Það er hins vegar erfitt að meta það nákvæmlega þar sem verðskrár liggja almennt ekki fyrir og tryggingakostnaður mismunandi milli tryggingataka. Þá getur tjónatíðnin einfaldlega verið lægri í öðrum löndum eða þá að auðveldara sé að gera greinarmun á tjónamiklum og tjónalitlum einstaklingum á stærri markaði og haga verðlagningu í samræmi við það.

Ingvi Þór Elliðason forstjóri Capasent var á meðal fyrirlesara í …
Ingvi Þór Elliðason forstjóri Capasent var á meðal fyrirlesara í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mismunandi samsetning hagnaðar

Á Íslandi skilar fjárfestingastarfsemin hins vegar miklu meiri tekjum en á Norðurlöndunum. Hér á landi er rekstrarhagnaður félaganna að langmestu leyti byggður upp á þessum tekjum en á Norðurlöndunum er þessu akkúrat öfugt farið. Mesti hagnaðurinn kemur frá tryggingastarfsemi.

Að sögn greiningardeildar Capacent er þetta kannski eðlilegt í ljósi þess að á Íslandi er hávaxtaumhverfi og góð ávöxtun er því á öruggum kostum líkt og ríkisskuldabréfum.

Eðlilegt markmið hjá tryggingarfélögunum er hins vegar að ná samsetta hlutfallinu niður fyrir 100% og láta þannig tryggingarstarfsemina standa undir sér þar sem skilyrði á mörkuðum geta alltaf tekið breytingum.

Blikur á lofti

Greiningardeildin telur blikur á lofti í tryggingageiranum. Umferðarþungi hefur aukist mikið á skömmum tíma samfara efnahagsuppsveiflunni. Þróuninni fylgja fleiri tjón og meiri tjónakostnaður. Þá gerir Capacent ekki ráð fyrir að sambærileg ávöxtun verði á fjárfestingatekjum á næstu árum líkt og verið hefur.

Arðgreiðslustefnur tryggingafélaganna eru eðlilegar að sögn Capacent.
Arðgreiðslustefnur tryggingafélaganna eru eðlilegar að sögn Capacent. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Háar og stöðugar arðgreiðslur

Tvennt einkennir arðgreiðslur tryggingafélaga víða um heim að sögn Capacent; þær eru háar og stöðugar. Geta hluthafar búist við að arðgreiðslur séu að minnsta kosti 70% af hagnaði.

Annars staðar í heiminum teljast tryggingafélög því frekar öruggur fjárfestingakostur og getur það einfaldlega verið hagkvæmt fyrir fjárfesta að geyma peningana þar og láta tryggingafélagið ávaxta þá í stað þess að fá fjármunina endilega greidda aftur út í arðsformi í miklu magni.

Óstöðugleikinn í arðgreiðslum á Íslandi hefur hins vegar gert íslenskum félögum erfitt fyrir.

Eðlileg arðgreiðslustefna

Í kynningu Capacent kom fram að eðlileg ávöxtunarkrafa hluthafa vegna fjárfestinga þeirra í íslenskum tryggingarfélögum sé um 13%. Meðalávöxtun félaganna er í dag um 14% og að sögn greiningardeildarinnar má því segja að arðsemisstefnan sé alveg eðlileg. Er þessi ávöxtun líkt og áður segir fyrst og fremst byggð á fjárfestingastarfsemi en ekki tryggingastarfsemi.

Það sem gera má athugasemd við er hins vegar óstöðugleikinn í arðgreiðslum að sögn greiningardeildar Capacent.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK