FL Group tengt við Trump og Rússa

Frá aðalfundi FL Group á Nordica.
Frá aðalfundi FL Group á Nordica. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Íslenska fjárfestingafélagið FL Group, mafíósar og glæpamenn koma við sögu í ítarlegri umfjöllun New York Times um málsókn og sakamál sem Donald Trump afgreiddi utan réttar. Þar segir að auðugir rússneskir stuðningsmenn Vladimírs Pútíns hafi kosið að stunda viðskipti við félagið íslenska. 

Í umfjölluninni segir að FL Group hafi fjárfest fyrir 50 milljónir Bandaríkjadala, eða 6,2 milljarða króna, í byggingu Trump Soho turnsins og þremur öðrum verkefnum á vegum þróunarfélagsins Bayrock Group. 

Bayrock Group er ásamt Trump þungamiðja umfjöllunar New York Times. Þar segir að FL Group hafi verið nefnt í fjárfestakynningum Bayrock sem „mikilvægur samstarfsaðili“.

Ásamt FL Group var rússneski auðkýfingurinn Alexander Mashkevich einnig nefndur, en hann var einu sinni ákærður fyrir spillingu í máli sem varðaði mútugreiðslur frá belgísku fyrirtæki sem ætlaði að hasla sér völl í Kasakstan.

Tengiliður Bayrock og FL Group við Trump er sagður hafa verið Salvatore Lauria, sem er lýst þannig í greininni að hann hafi stundum mætt með rafrænt ökklaband í vinnuna. Hann starfaði m.a. sem uppljóstrari fyrir Bandarísku alríkislögregluna á skrifstofum Bayrock.

Vafasöm viðskipti Donalds Trump eru til umfjöllunar í grein New …
Vafasöm viðskipti Donalds Trump eru til umfjöllunar í grein New York Times. AFP

Ósamræmi í sölutölum

Í upphafi umfjöllunar New York Times er bent á að forsetaframbjóðandinn og auðkýfingurinn Donald Trump hafi ávallt hreykt sér af því að semja aldrei um mál utan réttar. Það bjóði einungis upp á fleiri málsóknir.

Fjölmiðillinn hefur hins vegar aflað fjölmargra dómskjala um þetta tiltekna mál sem varðar byggingu Trump Soho turnsins. Byggingunni var lokið árið 2007 á slæmum tíma í bandarísku efnahagslífi þegar fasteignamarkaðurinn var á niðurleið. Illa gekk að selja lúxusíbúðirnar í 46 hæða turninum og voru Trump og aðrir sem komu að verkefninu missaga um hversu margar íbúðir hefðu selst.

Trump gerði undantekningu á fyrrnefndri reglu sinni og samdi við kaupendur sem töldu sig hafa verið blekkta. Kaupendur fengu 90% af innborgun sinni endurgreidda í nóvember 2011, málið var afgreitt og Trump viðurkenndi ekki sök.

Opinberlega var málið afgreitt þannig úr herbúðum Trumps að um eiginlega réttarsátt hefði ekki verið að ræða. Kaupendurnir hefðu einungis fengið innborgarnir sínar endurgreiddar.

Í umfjöllun New York Times segir hins vegar að málið sé öllu flóknara þar sem fyrrnefndir kaupendur höfðu verið að starfa með saksóknara sem var að rannsaka hvort meintar blekkingar Trumps væru saknæmar.

Eftir að sáttin var gerð slitu kaupendurnir hins vegar samstarfinu við saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK