Ekki bara lundabúð í 17-húsinu

Laugavegur 91 hefur lengi staðið tómur. Bráðlega verður Icewear opnað …
Laugavegur 91 hefur lengi staðið tómur. Bráðlega verður Icewear opnað í húsnæðinu. Mynd af fasteignasíðu mbl.is

Stórverslun Icewear verður opnuð í 17 húsinu svokallaða við Laugaveg 91. Húsið hefur staðið autt í sex ár og hefur Bolli Kristinsson, eigandi hússins, ávallt viljað verslunarrekstur þar inn. Hann hefur gengið fast á eftir H&M sem hefur að sögn Bolla engan áhuga á íslenska markaðnum.

Um eitt stærsta verslunarhúnsæði á Laugaveginum er að ræða. Það er alls um tvö þúsund fermetrar að stærð og er leigusamningurinn til fimmtán ára. Bolli telur að búðin verði ekki „enn önnur lundabúðin“ heldur verði þarna fjölbreyttara úrval. 

Til hvers að koma til Íslands?

Hann segist helst hafa haft áhuga að fá sænsku verslunarkeðjuna H&M til að fylla rýmið. Fyrst það gekk ekki var rökréttast að fá ferðamannaverslun þangað inn. „Ég reyndi mikið en þeir hafa engan áhuga. Þá var enginn eftir nema Icewear. Ég vona að þarna verði til myndarleg verslun sem verður eitthvað meira en lundabúð.“

Aðspurður nánar um H&M segir hann fyrirtækið fara þangað sem best veiðist og þekkja tölur um eyðslu Íslendinga í H&M verslunum á erlendri grundu. „Til hvers að vera eyða peningum í að koma til Íslands þegar þeir fá þetta bara í hinum búðunum.“

Icewear hefur stækkað hratt á liðnum árum. Áætlað er að velta keðjunnar verði um 2,5 til 3 milljarðar króna á þessu ári en til samanburðar nam hún 810 milljónum króna árið 2012. Þá hefur starfsmönnum fjölgað hratt og voru þeir níu árið 2008 en verða um 170 í sumar.

Bolli telur Ágúst Þór Ei­ríks­son, eig­anda fé­lags­ins, vera öflugan kaupmann. „Margir kalla hann lundabúðakónginn og hann er sá sem fór fyrstur að framleiða fallegu íslensku lopapeysuna okkar í Kína,“ segir hann. „En það eru margir aðrir sem eru að versla við þessa erlendu ferðamenn sem eru ekkert sérstakir kaupmenn. En hann er útséður og góður kaupmaður,“ segir Bolli.

Sérsniðið umhverfi fyrir ferðamannabúðir

Bolli hefur á síðustu árum margoft gagnrýnt borgaryfirvöld fyrir lokanir á Laugaveginum og fækkun bílastæða. Hann telur tenginu á milli hinnar svokölluðu lundabúðaþróunar og þessa. Hann segir marga hefðbundna kaupmenn hafa fært sig í Kringluna, Smáralind eða út fyrir miðbæinn til þess að ná til Íslendinga sem vilja fara í verslanir á bílnum. 

Ferðamenn séu eftir í bænum og búðir sem höfða til þeirra og veitingastaðir þrífist samkvæmt því. „Það er augljóst að borgaryfirvöld miða sig við göngugötur í nálægum borgum þar sem neðanjarðarlestarkerfi er til staðar og almenningssamgöngukerfið er gott,“ segir hann og bætir við að ekkert tillit sé heldur tekið til veðráttunnar. Hann telur farsælustu lausnina að kaupmenn fái sjálfir að ráða hvenær Laugavegur verði að göngugötu.

„Þetta er þróunin og ég er ekkert endilega að segja að hún sé alslæm. En maður verður að koma auga á hana,“ segir Bolli. 

Bolli telur ýmis tækifæri liggja í opnun tvö þúsund fermetra verslunar fyrir ferðamenn og segir sniðugt að geta reddað öllu sem útlendingurinn þarf á einum stað; úlpum, flísfötum, áttavita, tjaldi, os.frv. Taka upp gömlu skátabúðina, líkt og Bolli segir.

Bolli Kristinsson, athafnamaður.
Bolli Kristinsson, athafnamaður.
Verslun Icewear í Austurstræti.
Verslun Icewear í Austurstræti. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK