Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir það ekki vera rétt að viðræður við sænska tískurisann H&M séu á lokastigi. Að sjálfsögðu eigi Reginn þó í viðræðum við fjölmarga mögulega og væntanlega leigutaka.
DV birti í gær óstaðfesta frétt um komu H&M til Íslands. Þar sagði að opna ætti verslanir sænska tískurisans í Smáralind og á Hörpureit. Reginn á bæði byggingarréttinn að verslunarhúsnæði á Hörpureitnum og húsnæði Smáralindar.
Frétt mbl.is: Viðræður hafnar vegna H&M
Helgi vísar til þess að fréttir um væntanlega komu H&M til Íslands séu ekki nýjar af nálinni. „Auðvitað vita það allir að það eru fullt af fyrirtækjum sem eru að skoða það að fá H&M til sín,“ segir Helgi.
Í samtali við mbl á dögunum sagðist kaupmaðurinn Bolli Kristinsson t.d. hafa reynt að fá H&M í 17-húsið svokallaða að Laugavegi 91. „Ég reyndi mikið en þeir hafa engan áhuga,“ sagði Bolli og vísaði til þess að forsvarsmenn H&M þekktu vel til eyðslu Íslendinga í H&M erlendis.
Helgi segir Reginn stöðugt eiga í viðræðum við fjölmarga mögulega leigutaka og að fyrirtækið greini ekki frá einstökum viðræðum.
„Það er ekki þannig að leigusamningur sé fyrirliggjandi eða að formlegar viðræður séu hafnar,“ segir hann. „En að sjálfsögðu standa yfir þreifingar við tugi og hundruð væntanlegra leigutaka.“
Aðspurður hvort viðræðurnar við H&M séu þá ekki á lokametrunum segir Helgi: „Langt frá því“.
Í svari við fyrirspurn mbl sagði upplýsingafulltrúi H&M að fyrirtækið gæfi ekki upplýsingar um mál sem ennþá gætu verið á viðræðustigi. Sagði hann að fyrirtækið hefði að minnsta kosti engin staðfest áform um opnun á Íslandi, eða: „At the moment we do not hold any concrete plans to open stores in Iceland,“ líkt og hann orðaði það.