Álfheiður: Félagið stofnað fyrir Kaupþing

Álfheiður Ingadóttir
Álfheiður Ingadóttir mbl.is/Rósa Braga

Sig­ur­m­ar K. Al­berts­son, hæsta­rétt­ar­lögmaður og eig­inmaður Álf­heiðar Inga­dótt­ur, fyrr­ver­andi ráðherra, stofnaði félagið Sýrey ehf. hinn 25. ágúst 2005 fyrir Kaupþing og skráði það sama dag hjá fyrirtækjaskrá Ríkiskattstjóra í Reykjavík.

Þetta kemur fram í færslu Álfheiðar Ingadóttur á Facebook. Í Morgunblaðinu í dag var fjallað um aðkomu lögfræðistofunnar Mossack Fon­seca að stofnun  fjölda ís­lenskra fé­laga sem tengd­ust Lands­bank­an­um og Kaupþingi fyrir bankahrun. 

Skrif­stofa Mossack Fon­seca á Tor­tóla í Bresku jóm­frúa­eyj­um var mikið notuð af ís­lensku bönkun­um fyr­ir hrunið, til dæm­is við kaup á hluta­bréf­um.

Frétt mbl.is: Mossack Fon­seca nýtt­ist við banka­kaup

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag kemur fram að Sig­ur­m­ar hafi stofnað fé­lagið Sýrey og verið for­svarsmaður þess þegar það var skráð á Tor­tóla.

Frétt mbl: Eig­inmaður Álf­heiðar hjá Mossack Fon­seca

Álfheiður segir Sýrey ehf. hafa verið stofnað fyrir Kaupþing í þeim tilgangi að ganga frá uppgjöri á skuldum tiltekins manns við bankann. Því verki hafi Sigurmar lokið.

Hinn 10. febrúar 2006 hafi verið haldinn fundur í félaginu þar sem Sigurmar fór úr stjórn.

Eftir það hafi Sigurmar ekki haft nein afskipti af þessu félagi.

Hún telur að með umfjölluninni sé fyrst og fremst verið að reyna koma höggi á sig og Vinstri græna. 

Í ársreikningum Sýreyj­ar frá 2005 til 2014 kemur fram að félagið hafi verið í eigu Holt In­vest­ment Group Ltd. 

Samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá Lúxemborgar var Holt In­vest­ment Group skráð á Bresku jóm­frúa­eyj­um í árslok 2010 og átti félagið Holts Hold­ing S.A. það að fullu. 

Sigurmar K. Albertsson
Sigurmar K. Albertsson mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Uppfært kl. 16:00 - Yfirlýsing frá Sigurmari

Sigurmar sendi í dag frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunarinnar. Þar segist hann í starfi sínu sem lögmaður hafa stofnað mörg félög fyrir umbjóðendur sína í margvíslegum tilgangi.

„Ekkert þeirra hefur verið stofnað á erlendri grundu og ennþá síður í þeim tilgangi að koma verðmætum í skattaskjól eða annað í þeim dúr. Í sumum tilfellum hef ég setið sem lögmaður í stjórn þessara félaga, stundum í einn sólarhring og stundum lengur en ávallt til þess eins að brúa bil þar til eigendur félaganna taka við stjórnartaumum,“ segir hann.

„Í því tilfelli sem gert hefur verið að umfjöllunarefni í dag vil ég taka það fram að félagið Sýrey ehf. var stofnað í ágúst árið 2005, fyrst með heimilisfesti á skrifstofu minni í Reykjavík og síðar að Bíldshöfða 14. Ég sat ég í stjórn þess um sex mánaða skeið eða til 10. febrúar árið 2006. Síðan hef ég hvorki heyrt né séð þetta félag og hvorki komið nálægt nafnbreytingu þess né hugsanlegum flutningi á heimilisfesti.“  

„Sama gildir um langflest önnur félög sem ég hef stofnað og tengst tímabundið. Slík þjónusta er einfaldlega hluti af daglegum verkefnum fjölmargra lögmanna – jafnvel þeirra sem deilt hafa lífinu hamingjusamlega með fólki úr stjórnmálageiranum.“

Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama.
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK