Skrifstofa Mossack Fonseca á Tortóla í Bresku jómfrúaeyjum var mikið notuð af íslensku bönkunum fyrir hrunið, til dæmis við kaup á hlutabréfum.
Fram kemur á vef Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna, ICIJ, sem halda utan um Panamaskjölin svonefndu, að Landsbankinn hafi stofnað 404 félög með milligöngu Mossack Fonseca.
Umrædd Panamaskjöl eru ekki aðgengileg. Það er hins vegar möguleiki á að finna heimildir um þessi félög í gegnum skyld félög í Lúxemborg.
Með þetta í huga var óskað eftir greiningu Creditinfo á því hversu mörg félög í fyrirtækjaskrá hafa endinguna S.A. eða S.á.r.l., sem er algeng ending á nöfnum félaga í Lúxemborg. Niðurstaðan var að 201 félag hefur þessa endingu. Næsta skref var að bera saman þessa skrá við eldri lista um félög á eyjunni Tortóla á Bresku jómfrúaeyjum, sem sögð voru í eigu Íslendinga í Morgunblaðinu 2009, samkvæmt upplýsingum frá FME.
Markmiðið var að leita tenginga við Tortóla og Panama.
Nánari eftirgrennslan hjá Creditinfo leiddi hins vegar í ljós að til eru stofnskjöl/skráningarvottorð umræddra 14 félaga sem eru á báðum áðurnefndum listum. Stofnskjölin eru flokkuð í töflunni hér fyrir ofan.
Blaðamaður reyndist hafa sótt vatnið yfir lækinn, enda var ekkert félaganna skráð í Lúxemborg, þótt nafnið gæfi það til kynna. Fyrsta félagið, Gigant S.A., var með heimilisfangið Mill Mall, Suite 6, í Road Town, höfuðstað Tortólu.
Næstu þrettán félög hafa hins vegar öll sama heimilisfangið. Þar af eru sjö skráð hjá Mossack Fonseca. Það bendir til að hugsanlega hafi öll þessi þrettán félög verið skráð hjá Mossack Fonseca.
Heimildarmaður sem þekkir vel til stofnunar aflandsfélaga segir eina ástæðu vinsælda Tortóla, og eftir atvikum Mossack Fonseca, við stofnun aflandsfélaga hafa verið lítinn kostnað við uppsetningu og rekstur.
Líklegt er að öll hafi þessi fjórtán félög farið í þrot í hruninu.
Sum tengjast dómsmálum. Þannig komu til dæmis félögin HollyBeach S.A., Harlow Equities S.A. og Partridge Management Group S.A. við sögu í Chesterfield-málinu, sem tengist lykilmönnum í Kaupþingi. Eins og sjá má á grafinu hér fyrir ofan var sótt um kennitölur fyrir þessi félög skömmu fyrir efnahagshrunið.
Jafnframt kom fram í frétt Morgunblaðsins í febrúar 2009 að félögin Proteus Global Holding S.A., Kargile Portfolio Inc, Peko Invest Company Ltd. og Marcus Capital Ltd. hafi sama heimilisfang. Það er tilgreint hér fyrir ofan, hjá Mossack Fonseca.
Félögin voru sögð hafa átt stóra hluti í Landsbankanum, líkt og félögin Zimham Corp. og Empennage Inc. á Panama, sem Kristján Gunnar Valdimarsson, fyrrum forstöðumaður skattasviðs bankans, var sagður umboðsmaður fyrir. „Öll þessi félög keyptu hlutabréf í bankanum og geymdu ... þangað til starfsmenn hans nýttu sér kauprétti sem þeir áunnu sér skv. samningum. Þau voru öll á lista yfir 20 stærstu hluthafa í Landsbankanum á tímabili,“ sagði í fréttinni. Ekki var getið um Mossack Fonseca sem er nú á allra vörum.
Með fréttinni fylgdi listi yfir 136 félög skráð á Tortóla-eyju sem fengu leyfi til að stunda bankaviðskipti á Íslandi á árunum 2000 til 2008. 52 félög voru sögð í umsjón Kaupþings banka, 25 í umsjón Landsbankans, dótturfélaga hans og stjórnenda og 9 í umsjón Glitnis, alls 86 félög af 136.