Reykjanesbær óski eftir fjárhaldsstjórn

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar hefur lagt til við bæjarstjórn að hún óski eftir því við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn. Lagt er til að þetta verði samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 19. apríl nk.

Reykjanesbær hefur um langt skeið átt í viðræðum við kröfuhafa sína um mögulega niðurfærslu skulda. Þeim viðræðum er nú lokið en án samkomulags.

Í yfirlýsingu frá bæjarráð segir að meirihluti kröfuhafa hafi samþykkt tillögu að samkomulagi um heildarendurskipulagningu. Það sé hins vegar ekki nægjanlegt og viðunandi niðurstaða í viðræðunum hafi því ekki náðst.

Óvissa hvaða áhrif ákvörðunin mun hafa

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun á fundinum og mótmæltu niðurstöðunni. 

„Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekum skoðun okkar að hagsmunum íbúa Reykjanesbæjar sé betur borgið í höndum kjörinna fulltrúa bæjarstjórnar og bæjarstjóra en í höndum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Algjör óvissa er um hvaða áhrif sú ákvörðun mun hafa á þjónustu og rekstur sveitarfélagsins til næstu ára,“ segir í bókuninni.

„Ef ríkið sér ekki ástæðu til að standa með sveitarfélaginu gagnvart föllnu bönkunum sem það sjálft hefur notið góðs af sem og uppbyggingu í Helguvík þá teljum við réttast að það geri sjálft kröfu um yfirtöku á fjármálum sveitarfélagsins fremur en að frumkvæðið sé frá kjörnum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.“

Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fresturinn rann út í gær

Í yfirlýsingu frá bæjarráði er farið yfir skuldavanda Reykjanesbæjar.

Hinn 5. febrúar sl. náðist samkomulag við stærstu kröfuhafa um að niðurfærsluþörf sveitarfélagsins næmi um 6,3 milljörðum króna að því gefnu að samningar næðust í frjálsum samningum og sveitarfélagið væri í stakk búið að grípa þau tækifæri sem því standa til boða.

Niðurfærsluþörfin og tillaga að endurskipulagningu var svo kynnt öðrum kröfuhöfum á tímabilinu 22.-29. febrúar.

Bréf var sent til allra kröfuhafa 18. og 22. mars þar sem ferli málsins var nánar rakið ásamt öðrum atriðum. Í bréfinu var tillaga að vinnuferli kynnt sem og að það væri skýr vilji Reykjanesbæjar að leita allra leiða til að ljúka viðræðum um heildarendurskipulagningu á fjárhag sveitarfélagsins fyrir 15. apríl 2016. Jafnframt var óskað eftir því að kröfuhafar kæmu á framfæri beiðnum um frekari gögn teldu þeir sig þurfa.

Drög að samkomulagi um heildarendurskipulagningu var samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar þann 7. apríl og kröfuhöfum tilkynnt að óskað væri eftir að þeir samþykktu samkomulagið fyrir kl. 17:00  miðvikudaginn 13. apríl 2016.

Bæjarráð samþykkti einnig á sama fundi að óskað yrði eftir því að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn, eins og lög gera ráð fyrir, ef samkomulag við kröfuhafa næðist ekki.

Líkt og áður segir náðist slíkt samkomulag ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK