Íslandsbanki flytur höfuðstöðvar í Norðurturninn

Höfuðstöðvar Íslandsbanka eru nú á Kirkjusandi.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka eru nú á Kirkjusandi. mbl.is/Ómar

Á stefnufundi starfsmanna Íslandsbanka sem fram fór fyrr í dag var tilkynnt að höfuðstöðvar Íslandsbanka munu á haustmánuðum flytjast í Norðurturninn í Kópavogi. Höfuðstöðvarnar eru nú á Kirkjusandi og hafa verið undanfarin 20 ár. Með þessari breytingu verður starfsemi höfuðstöðva, sem í dag fer fram á fjórum stöðum, sameinuð undir einu þaki þar sem 650 starfsmenn munu starfa. Mikil hagkvæmni fylgir sameiningunni en samanlagður fermetrafjöldi höfuðstöðvastarfsemi fer úr 13.900 í 8.600 fermetra í Norðurturninum, segir í fréttatilkynningu.

Um hríð hefur legið fyrir að sameina starfsemi bankans í nýjum höfuðstöðvum. Nýtt útibú bankans mun jafnframt opna á 1. hæð Norðurturnsins í nóvember.

 Í tilkynningunni kemur fram að rakaskemmdir hafi fundist í höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi. Viðamiklar rannsóknir hafa staðið yfir á húsnæðinu ásamt því að það hefur verið hreinsað með það að markmiði að lágmarka áhrif á starfsfólk. Fylgst er vel með loftgæðum í húsinu sem koma vel út en ljóst er að fara þarf í töluverðar endurbætur á húsnæðinu, segir í fréttatilkynningunni. 

„Við höfum beðið lengi eftir að geta sameinað alla höfuðstöðvastarfsemi bankans á einum stað,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í fréttatilkynningunni. „Vegna aðstæðna á Kirkjusandi flýtum við þessum áformum okkar og sjáum mikil tækifæri í hinum nýja höfuðstöðvum. Bankinn vill vera framsýnn í starfsemi sinni og við munum nú, undir einu þaki, geta boðið starfsfólki og viðskiptavinum upp á enn betri þjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK