Fyrrverandi starfsmaður ríkisskattstjóra sem gegndi lykilhlutverki við meint hundruð milljóna króna skattsvik starfaði ennþá hjá embættinu þegar rannsókn málsins hófst árið 2010.
Í samtali við mbl segist Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, ekki ætla að tjá sig efnislega um málið enda sé það í ákærumeðferð hjá ríkissaksóknara. „Þessi maður var tekinn og settur í gæsluvarðhald þegar rannsókn hófst og hefur ekki komið hingað síðan,“ segir Skúli.
Að sögn Skúla starfaði maðurinn hjá skattstofunni í Hafnarfirði.
Upp komst um málið í september árið 2010 en svikin eru sögð hafa farið þannig fram að átta einstaklingar settu á fót sýndarfyrirtæki í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr virðisaukaskattkerfinu.
Skúli segir manninn hafa starfað á virðisaukaskattsviði.
Maðurinn hafði að sögn Skúla starfað hjá ríkisskattstjóra í nokkur ár og var hann starfsmaður skattstofunnar í Reykjavík áður en embættið var lagt niður og verkefni þess voru flutt til ríkisskattstjóra í janúar 2010.
Vísir greindi fyrst frá málinu í morgun en rannsókn þess er sagt hafa lokið árið 2013 og hefur það síðan verið á borði ríkissaksóknara. Það verður að sögn Vísis tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í næsta mánuði.
Mbl.is óskaði eftir ákæru í málinu frá embætti ríkissaksóknara. Þar fengust hins vegar þær upplýsingar að ákæran yrði ekki gefin út opinberlega fyrr en tryggt væri að hún hafi verið kynnt öllum sakborningum.
Í frétt Vísis segir að sýndarfyrirtækin hafi ekki haft neina raunverulega starfsemi en fengið í krafti falsaðra gagna og aðgangs að fyrrnefndum starfsmanni Ríkisskattstjóra stórfé vegna byggingar þriggja húsa sem aldrei voru reist.