Horfum ekki á hótelið með eftirsjá

Teikning af fyrirhugaðri byggingu á Landssímareitnum.
Teikning af fyrirhugaðri byggingu á Landssímareitnum. Mynd/Landssímareitur.is

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Lindarvatns ehf., sem stendur að framkvæmdunum á Landssímareitnum, telur tillögu um stöðvun framkvæmdanna byggða á misskilningi. Gert er ráð fyrir húsunum í deiliskipulagi og framkvæmdaraðilar munu skoða lagalega stöðu sína ef tillagan verður samþykkt. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir söguna uppfulla af atburðum sem menn minnast með eftirsjá vegna þess að einhverjir voru að flýta sér í framkvæmdum. Hann segir þetta vera spurningu um hvernig menn minnast fortíðarinnar og vill ekki að komandi kynslóðir þurfi að horfa á fyrirhugað hótel með eftirsjá.

Líkt og fram hef­ur komið lögðu borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins og Framsóknar og flugvallarvina fram fram til­lögu á fundi borg­ar­stjórn­ar á þriðju­dag­inn í síðustu viku. Þar var lagt til að framkvæmdir yrði stöðvaðar til að forðast menningarlegt tjón. 

Elsti kirkjugarður borgarinnar

Fjöldi beinagrinda hafa fundist á byggingarreitnum og komið er í ljós að Víkurkirkjugarður, elsti kirkjugarður borgarinnar, nær inn á svæðið.

Vala Garðars­dótt­ir, for­leifa­fræðing­ur og stjórn­andi upp­graftr­ar­ins, ritaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún segir að fyrra jarðrask og fram­kvæmd­ir hafifjar­lægt og rutt því til sem þar var. Frá lok­um 18. ald­ar hafa all­mörg hús staðið þar sem nú er hinn svo­kallaði Lands­s­ímareit­ur. 

Frétt mbl.is: Erfitt að sjá það sem blasti við

„Við höldum okkar striki í samræmi við deiluskipulagið sem er í gildi og það leyfi sem við höfum frá Minjastofnun,“ segir Davíð. Hann segir fornleifarannsóknir á öðrum svæðum á reitnum þegar hafnar.

Landsímareiturinn er í eigu félagsins Lindarvatns ehf., en það er í helmingseigu Dalness ehf., og Icelandair Group hf. Icelandair Hot­els, dótt­ur­fé­lag Icelandair Group, hefur skrifað undir leigu­samn­ing til 25 ára um rekstur hót­els á reitnum

Munu skoða lagalega stöðu

Davíð hefur takmarkaðar áhyggjur af tillögunni og telur ólíklegt að hún verði samþykkt. „Við sjáum ekki að það séu neinar forsendur til að samþykkja tillöguna og teljum að útilokað að það verði gert,“ segir hann.

„Það er til staðar samþykkt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir húsum þarna við Kirkjustrætið, þar sem áður var bílastæði við Landsímahúsið. Það hefur ekkert nýtt komið fram sem ætti að breyta því.“

Aðspurður um álit á tillögunni segir Davíð að hún hljóti að stafa af einhverjum misskilningi. „Ef menn skoða efnisatriði málsins hljóta þeir að sjá að ekki er tilefni til að endurskoða áformin.“

Þá segir hann svæðið ekki vera fallegt í dag en telur að það verði eitt af glæsilegustu svæðum borgarinnar. 

Aðspurður um mögulega bótakröfu á hendur borginni verði tillagan samþykkt segist hann munu skoða það ef til þess kemur.

Réttlætir ekki meiri eyðileggingu

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, stendur að baki tillögunni. Hann segir afstöðu sína ekki hafa breyst. Hann segir fyrra rask á reitnum ekki réttlæta það að gengið sé alla leið í eyðileggingunni.

Hann bendir á að tekist hafi verið á um mörk Víkurkirkjugarðs þegar deiliskipulag var samþykkt fyrir reitinn sumarið 2013; sumir töldu garðinn ná inn á reitinn og aðrir ekki. Nú sé hið sanna komið í ljós og þá sé rétt að staldra við og skoða hvernig eigi að halda áfram. Fyrirvari hafi verið settur við þetta atriði. „Það var alveg ljóst í okkar huga að við vildum ekki steypa hótel ofan í kirkjugarðinn.“

„Auðvitað skil ég að eigendur séu að flýta sér að byggja hótel og pirraðir á töfum. En það er nú bara þekkt dæmi í borgum sem við berum okkur saman við að fornleifar séu látnar hafa forgang,“ segir hann. „Að það sé staldrað við þegar þær finnast og umræðan tekin upp á nýtt.“

Komið til móts við byggingaraðila

Ef skipulagi yrði breytt og ákveðið yrði að vernda Víkurkirkjugarð myndi borgin koma til móts við byggingaraðila með einhverjum hætti til að bæta þeim skaðann, segir Kjartan.

Í tillögunni er gert ráð fyrir nokkurs konar almenningsgarði á reitnum með minningarmerki um hina framliðnu. „Það má gera þetta með ýmsum hætti,“ segir hann aðspurður um þetta atriði. „Það eru ekki margar höfuðborgir í heiminum sem vita nákvæmlega hvar fyrsti kirkjugarður borgarinnar er staðsettur. Það gæti verið áhugavert að vinna með það.“ 

„Ef menn kjósa að fara þá leið að endurskoða þetta ekki með neinum hætti tel ég að þeir sem taka við af okkur muni eftir einhver ár gera athugasemd við flýtinn.“

Hér má skoða deiliskipulag Landssímareitsins.

Hér er heimasíða framkvæmdanna..

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, eiganda Landssímareitsins.
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, eiganda Landssímareitsins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Ómar Óskarsson
Fjöldi beinagrinda hafa fundist við Landssímareitinn.
Fjöldi beinagrinda hafa fundist við Landssímareitinn. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK