Rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar á síðasta ári er töluvert frábrugðin áætlun borgarinnar. Munurinn nemur um tólf milljörðum króna. Niðurstaðan er neikvæð um tæpa fimm milljarða en gert hafði verið ráð fyrir um 7,3 milljarða króna afgangi.
Meginástæðan er hækkun á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga sem nema 14,6 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi borgarinnar fyrir árið 2015 sem var í dag vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn.
Líkt og áður segir er rekstrarniðurstaða A og B hluta neikvæð um tæpa fimm milljarða króna. Fyrrnefndar lífeyrisskuldbindingar komu þó ekki til greiðslu á síðasta ári heldur er um skuldbindingar til næstu ára og áratuga að ræða.
Hluti gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga er vegna breyttra forsenda um dánar- og lífslíkur eða 6,5 milljarðar króna.
Aðrar ástæður eru fjármagnsgjöld Orkuveitu Reykjavíkur vegna gjaldfærðra gangvirðisbreytinga, alls 10,2 milljarðar, sem til komin eru vegna áhrifa lækkunar álverðs. Að hluta til kemur hins vegar tekjufærður gengismunur á móti, vegna veikingar evru.
Rekstrarniðurstaðan er því 12,3 milljörðum króna lakari en gert var ráð fyrir.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 13,6 milljarða króna, sem skýrist aðallega af gjaldfærðum lífeyrisskuldbindingum.
Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok samtals 525,5 milljörðum króna. Heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 301,5 milljarður króna og eigið fé nam 224 milljörðum króna. Þar af nam hlutdeild meðeigenda 12,7 milljörðum króna.
Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum.