Fulltrúar Seðlabankans geta tekið undir það sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna að ákvörðunin um að endurreisa SpKef hafi verið pólitísk.
Skýrslan er til umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag og komu þær Harpa Jónsdóttir og Gerður Ísberg, starfsmenn Seðlabankans fyrir nefndina í morgun. Síðar í dag munu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins auk nokkurra fyrrverandi ráðherra koma fyrir nefndina.
Í skýrslunni er sérstakur kafli um stofnun Spkef sparsjóðs. Gjaldþrot SpKef kostaði almenning um 25 milljarða króna.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fyrirgreiðslur ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins sem kom út árið 2008 segir að í árslok 2008 hafi veðlán Seðlabankans til bankakerfisins numið 345 milljörðum króna ásamt áföllnum vöxtum.
Eftir hrun bankanna sýndi sig að tryggingar að baki lánunum voru í mörgum tilvikum fjarri því að vera góðar. Ríkissjóður tók yfir skuld Seðlabankans að mestu leyti og varð hún þar með að skuld ríkissjóðs.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvers vegna fyrirgreiðslum til Sparisjóðs Keflavíkur hefði verið haldið áfram þrátt fyrir að ljóst hafi átt að vera að sjóðnum yrði ekki bjargað. Þrátt fyrir að hann væri í rjúkandi rúst, líkt og Brynjar orðaði það.
Fulltrúar Seðlabankans sögðust geta tekið undir það sem fram kemur í skýrslunni um að ákvörðunin um að endurreisa sjóðinn hefði verið pólitísks eðlis.
Þær bentu á að Seðlabankinn hefði þó verið að taka við ríkistryggðum bréfum sem veðum frá sparisjóðnum. Þau væru örugg fyrir Seðlabankann og var bankinn því bara að veita veðlán gegn öruggum tryggingum.
Eina sem gæti fallið þar fyrir utan væri hið svokallaða Reykjanesbæjarbréf sem einnig var lagt að veði. Sögðu þær að bréfið hafi fallið fyrir utan reglur bankans. „En því er leyft að vera og ég reikna með að einhverjar samræður hafi farið fram haustið 2008,“ sagði Gerður Ísberg og vísaði til þess að stjórnvöld hlytu að hafa rætt við bankann um bréfið.
Með Reykjanesbæjarbréfi er vísað til skuldabréfs sem Reykjanesbær gaf út til að styðja við Sparisjóðinn.
Brynjar Níelsson spurði hvort ekki væri óeðlilegt að bankinn skuli hafa lánað einhverjum, sem sé augljóslega ekki borgunarmaður, leggi hann fram tryggingar.
Gerður sagði að Seðlabankinn hefði á þessum tíma aldrei sett lánatakmarkanir svo lengi sem tryggingar væru í lagi.
Þessari stefnu hafi nú verið breytt.
Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík sótti 10. mars 2009 um eiginfjárframlag úr ríkissjóði en eftir umsagnir Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og áreiðanleikakönnun PricewaterhouseCoopers ehf. varð ljóst að sparisjóðurinn uppfyllti ekki skilyrði fyrir framlaginu. Í ljósi stöðu sparisjóðsins skipaði Fjármálaeftirlitið sérfræðing 4. júní 2009 til að hafa sértækt eftirlit með sparisjóðnum.
Nýr sparisjóðsstjóri tók við á svipuðum tíma og hafist var handa við fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðsins. Fjármálaeftirlitið veitti sparisjóðnum síðast frest til að semja við kröfuhafa og uppfylla eiginfjárskilyrði 29. mars 2010 en þá hafði eiginfjárstaða hans verið undir lögbundnu marki í rúmt ár.
Tæpum þremur vikum síðar var það mat Fjármálaeftirlitsins að eiginfjárvandi sparisjóðsins væri slíkur að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum og kröfuhöfum.
Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjárhafafundar sparisjóðsins, vék stjórn sjóðsins frá og skipaði í framhaldinu skilanefnd yfir sparisjóðnum. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins fól jafnframt í sér að allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins voru færðar í nýtt félag, Spkef sparisjóð, sem var að fullu í eigu Bankasýslu ríkisins.