Landsnet hefur ráðið Steinunni Þorsteinsdóttur í nýtt starf upplýsingafulltrúa fyrirtækisins og ber hún meðal annars ábyrgð á miðlun upplýsinga, skipulagningu viðburða og mótun stefnu Landsnets í samfélagsmiðlun.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Það er spennandi áskorun að taka þátt í að móta upplýsinga- og samfélagsmiðlun Landsnets. Fram undan eru krefjandi og áhugaverð verkefni svo fyrirtækið geti haldið áfram að sinna því mikilvæga hlutverki að veita íslenskum heimilum og atvinnulífi tryggan aðgang að rafmagni í sátt við samfélagið og umhverfið,“ segir Steinunn í tilkynningu, en hún starfaði hjá Hafnarfjarðarbæ sem upplýsinga- og kynningarfulltrúi í þrettán ár. Hún hefur einnig unnið við ritstörf, blaðamennsku, bóka- og handritaskrif og ráðgjöf um vef- og samfélagsmiðla.
Steinunn er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands auk þess sem hún hefur sótt fjölda námskeiða, m.a. hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, tengd markaðsmálum, rafrænum samskiptum, samfélagsmiðlun, skapandi skrifum, viðburðarstjórnun og opinberri stjórnsýslu.