Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa ekki trú á öðru en að Landsnet leysi úr málum eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun ráðherra um eignarnám landareigna fyrir Suðurnesjalínu 2 og uppfylli orkusamninga sem hafa verið gerðir um afhendingu raforku til Suðurnesja.
Í stuttri yfirlýsingu frá Reykjanesbæ segir að engar upplýsingar hafi borist frá Landsneti um tafir á raforkusamningum. Raforka til 1. áfanga United Silcon hefur verið tryggð en næsti áfangi sé áætlaður árið 2019. Þá sé áætlað að Thorsil hefji framkvæmdir árið 2018.
Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun iðnaðarráðherra um að heimila eignarnám á jörðum landeigenda á Vogum á Vatnsleysuströnd í gær. Sneri hann þar við dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum landeigendanna gegn Landsneti og íslenska ríkinu. Forsendur Hæstaréttar voru þær að fyrirtækið hefði ekki kannað nægilega möguleikann á að leggja línuna í jörðu.
Í tilkynningu frá Landsneti vegna dómanna í málunum í gær kom fram að þeir breyti forsendum lagningar Suðurnesjalínu 2. Þórður Bogason, lögfræðingur Landsnets, sagði við mbl.is að ljóst sé að úrbætur í samræmi við dóminn muni valda töfum á lagningu hennar.
Fyrri fréttir mbl.is: