Verið er að leggja lokahönd á frumvarp til breytinga á skattalögum sem byggir á ábendingum frá Skattrannsóknarstjóra og Ríkisskattstjóra. Þetta eru breytingar sem fjármálaráðherra telur rétt að ráðast í án frekari tafa og varða meðal annars aflandsfélög.
Í samtali við mbl í síðustu viku sagðist Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, hafa sent ítarlegar tillögur til fjármálaráðuneytisins um lagabreytingar vegna aflandsfélaga og skattaundanskota. Sagði hann lagafrumvarp þess efnis væntanlegt fljótlega.
Frétt mbl.is: Ítarlegar tillögur vegna aflandsfélaga
Aðspurður um stöðu málsins segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra að verið sé að leggja lokahönd á frumvarpið í ráðuneytinu og vonast hann til þess að hægt verði að leggja það fyrir ríkisstjórn síðar í vikunni.
Bjarni segir að ábendingum hafi verið safnað frá nokkrum stofnunum og nefnir þar sérstaklega Skattrannsóknarstjóra og Ríkisskattstjóra.
Auk þess sem þetta frumvarp, sem felur í sér breytingar sem Bjarni telur rétt að ráðast í án frekari tafa, er verið að setja saman starfshóp sem á að horfa enn víðar yfir sviðið og skila af sér frekari ráðgjöf varðandi efnið. Hópurinn á að skila skýrslu um tillögur fyrir lok júní.
Frétt mbl.is: Skipa starfshóp um skattaundanskot og skattaskjól
Bjarni vill þó ekki gefa efni frumvarpsins upp nánar að svo stöddu.
Aðspurður hvort frumvarpið feli í sér breytingar á tekjuskattslögum segir hann að verið sé að skoða hvort ástæða sé til að herða ákvæði þeirra laga og eftir atvikum ákvæði annarra laga.
Líkt og áður segir varða breytingarnar aflandsfélög en Bjarni segist ekki útiloka að á sama tíma verði gerðar breytingar sem ekki tengjast aflandsfélögum eða slíkri starfsemi með beinum hætti.
Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á dögunum sagði Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, meðal annars að leyndin við mál sem tengjast skattaskjólum væri meginvandinn. Það sem máli skipti fyrir skattyfirvöld væri að fá upplýsingar en þær fást sjaldnast nema með áhlaupum eða sambærilegum aðgerðum.
Frétt mbl.is: Verið hrópandinn í eyðimörkinni
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, hefur einnig gert upplýsingaskortinn að umtalsefni og sagði á dögunum að aðgangur skattyfirvalda að upplýsingum skipti öllu máli. Sagði hún völd gjaldanda við skattskoðun vera umhugsunarverð. Hann hafi mikla stjórn á gögnunum sem ákveðið er að leggja fram.
Sagðist Bryndís telja rétt að skoða lagabreytingar þar sem gjaldandi yrði mögulega látinn bera hallann af því að leggja ekki fram nauðsynleg gögn með rýmri heimildum til áætlunar tekna eða að viðurlögum yrði beitt með harðari hætti.
Frétt mbl.is: Tekjurnar sjaldnast taldar fram
Þá sagði Bryndís einnig á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á dögunum að skoða mætti hvort gera ætti ráðgjöf um að skrá félög í skattaskjóli refsiverða. Það yrði þá til að mynda á þeim forsendum að ráðgjafarnir væru meðsekir í mögulegum brotum.
Frétt mbl.is: Ráðgjöf ætti að vera refsiverð