Vilja ekki kvarta en sjá um eftirlit

Á fundi um útboðsmál í morgun kom fram að ríkið …
Á fundi um útboðsmál í morgun kom fram að ríkið gæti hagað innkaupum sínum með hagkvæmari hætti. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Möguleikar ríkisins til að stýra innkaupum eru illa nýttir. Eftirlit er nánast ekkert og nær einungis í höndum þeirra fyrirtækja sem kvarta til kærunefndar. Fyrirtækjaeigendur virðast þó tregir til að kvarta og óttast að það hafi afleiðingar. Landspítalinn er oftast kærður.

Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi Félags atvinnurekenda um útboðsmál í morgun. Yfirskrift fundarins var: „Er ríkið lélegur neytandi? Vannýtt tækifæri í innkaupum og útboðsmálum ríkisins.“ 

Á fundinum kom fram að kærunefnd útboðsmála úrskurðaði í 145 málum sem beindust að opinberum stofnunum á árunum 2011 til 2015. Á fundinum var farið yfir svokallaðan „Topp 10 lista“ yfir þær stofnanir sem oftast eru kærðar og kom fram að flestar kærur beindust að Landspítalanum, eða alls 25 talsins. Í öðru sæti eru Ríkiskaup og Vegagerðin er í þriðja sæti. Reykjavíkurborg er í fjórða sæti með 16 kærur og Isavia er í fimmta sæti.

Það sem fyrirtæki virðast helst reka sig á og kæra til nefndarinnar eru of þröngar útboðslýsingar, þannig að vara sé „valin“ eða framkvæmd rammasamninga.

Þora ekki að kæra

Í dag liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um opinber innkaup. Inga Skarphéðinsdóttir, lögfræðingur hjá Félagi atvinnurekenda, segir frumvarpið vera til bóta að mörgu leyti og vísaði hún m.a. til hæfisyfirlýsingar bjóðenda og að almennu innkaupareglurnar undir erlendum viðmiðunarfjárhæðum nái einnig til sveitarfélaga.

Hins vegar væru þar ekki að finna breytingar á reglum um kærunefnd útboðsmála.

Inga sagði mörg fyrirtæki almennt veigra sér við að kæra brot vegna mögulegra afleiðinga slíkrar kæru og vísaði til þess að úrskurðir hjá dönsku kærunefndinni væru t.d. mun fleiri en þar hafa félög og samtök sjálfstæða heimild til að leggja fram kæru til nefndarinnar án þess að hafa sjálf lögvarða hagsmuna að gæta í málinu.

Eftirlit háð fyrirtækjum

Skúli Magnússon, dómari og formaður kærunefndar útboðsmála, fór yfir úrskurði nefndarinnar á fundinum í morgun og sagði ljóst að ríkið eyðir lítilli orku í málaflokkinn og benti á að að Ríkiskaup séu ekki í aðstöðu til að stýra málaflokknum þar sem stofnunin sé fyrst og fremst þjónustustofnun ríkisins. 

Hann benti á að fumkvæðiseftirlit af hálfu hins opinbera væri ekkert og vísaði til þess að starfsemi kærunefndarinnar væri háð því að kvartanir berist til nefndarinnar. Eftirlit sé þannig mjög háð fyrirtækjum í landinu.

Rammasamningar of víðtækir?

Þá sagði Skúli ljóst að eitthvað væri bogið við rammasamninga sem oft eru þannig gerðir að ríkið semur við marga aðila og þá án þess að nokkur samkeppni fari fram í útboðinu sjálfu. „Hver er þá staðan eftir að samningur hefur verið gerður?“ spurði Skúli og sagði þá hugsun læðast að sér að þarna sé verið að nota rammasamnings fyrirkomulagið til að komast í þægilegra umhverfi.

Þá sé einnig bagalegt að fyrirtæki sem semja við ríkið samkvæmt slíkum samningi séu ekki með viðskipti föst í hendi. Fyrirtækið þarf að vera tilbúið með vöru á lager en er þó ekki með tryggingu fyrir því að ríkið muni kaupa vöruna.

Skilgreina ekki seljanda fyrirfram

Þá nefndi Skúli einnig tæknilegar lýsingar á vöru eða þjónustu í samningum. Auðvitað eigi kaupandinn að skilgreina sínar þarfir í útboðslýsingu en þó megi ekki ganga svo langt að skilgreina seljandann fyrirfram. 

Hann benti á að margar kærur sneru einmitt að þessu atriði en hins vegar sé lagalega staðan þannig að fyrirtæki þurfi að leiða líkur að því að verið sé að sníða útboðsskilmála að vöru. Hingað til hafi kærunefndin ekki fallist á þetta. „Auðvitað getur þó komið að því að kærunefndin missi þolinmæðina og segi að ákveðið mynstur sé að myndast. Þá gæti verið komin ástæða til að láta opinbera aðilann sýna fram á að þetta séu hlutlausir skilmálar sem útiloka ekki samkeppni,“ sagði Skúli.

Auk þess sagði hann miklar kröfur í útboðsskilmálum umhugsunarverðar og benti á að ekki ætti að útiloka yngri og minni fyrirtæki. Skoða þurfi hvaða áhrif miklar kröfur hafi á verð.

„Regluverkið er í þokkalegu standi,“ sagði Skúli. „En eftirlit með opinberum innkaupum er óburðugt og í rauninni í höndum fyrirtækja,“ sagði hann.

Frétt mbl.is: Alvarleg staða í útboðsmálum

Skúli Magnússon, dómari og formaður kærunefndar útboðsmála.
Skúli Magnússon, dómari og formaður kærunefndar útboðsmála.
Landspítalinn hefur oftast verið kærður til kærunefndar útboðsmála á síðustu …
Landspítalinn hefur oftast verið kærður til kærunefndar útboðsmála á síðustu fimm árum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK