Óvægin umræða um arðgreiðslur stóru tryggingafélaganna þriggja skilaði Verði fjölmörgum nýjum viðskiptavinum. Forstjórinn segir fyrirtækið nánast hafa uppfyllt áætlanir ársins á örskömmum tíma. „Þetta stytti okkur mikið leiðina að endanlegu markmiði ársins,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar og bætir við að auðveldara verði að ná áætlunum ársins í iðgjöldum mælt.
Í mars sl. vöktu arðgreiðsluáform VÍS, Sjóvá og TM mikla athygli og urðu þess valdandi að mikil hreyfing komst á tryggingamarkaðinn. Fyrirtækin drógu síðar fyrri áform til baka og lækkuðu arðgreiðslurnar en svo virðist sem nokkur fjöldi viðskiptavina hafi samt sem áður leitað á ný mið.
Í samtali við mbl í mars sagðist Guðmundur aldrei hafa upplifað álíka eftirspurn og greip fyrirtækið meðal annars til þess að lengja opnunartíma og hafa opið á laugardegi til að svara mögulegum viðskiptavinum sem vildu tilboð í tryggingar sínar.
Frétt mbl.is: Mjög mikil hreyfing á tryggingamarkaði
Þá leiddi könnun á vegum FÍB sem framkvæmd var í lok mars í ljós að um þriðjungur viðskiptavina tryggingafélaganna hafði fengið iðgjöld sín lækkuð í framhaldi af mótmælum við arðgreiðsluáformin.
Frétt mbl.is: Mótmæli skila lækkun iðgjalda
Aðspurður hvort þessi aukni áhugi á Verði hafi skilað sér í viðskiptavinum segir Guðmundur að vissulega hafi ekki allt orðið að sölu. Þrátt fyrir það hafi fyrirtækið fengið töluvert af nýjum viðskiptavinum. „Fjölgunin var langt umfram það sem við eigum að venjast og það er áframhaldandi álag umfram það sem vænta mátti,“ segir Guðmundur.
Umræðan virðist því hafa komið hreyfingu á tryggingamarkaðinn til lengri tíma. „Fólk er núna mun frekar að skoða sín tryggingamál,“ segir hann.
Guðmundur segir áhugavert að þetta hafi ekki einskorðast við ákveðinn aldurshóp heldur hafi jafnvel tryggir viðskiptavinir félaganna til fjölda ára farið á hreyfingu. „Eins og fram kom á sínum tíma að þá fengum við þau skilaboð frá fólki að þeim ofbauð upphæðirnar sem voru í umræðunni upphaflega. Þrátt fyrir að þær hafi verið dregnar til baka var þetta rót samt komið á markaðinn.“