Landspítalinn svarar fyrir sig

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langflestum kærum vegna útboðsmála Landspítalans á síðustu fimm árum hefur verið hafnað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu spítalans þar sem málflutningi Guðlaugs Þórs Guðlaugssonar er jafnframt hafnað. 

Líkt og fram hefur komið er Landspítalinn oftast allra ríkisstofnana kærður til kærunefndar útboðsmála og eru kærurnar alls 32 talsins frá ársbyrjun 2011 til 2015. Af þessum 32 kærum hefur 26 verið hafnað af kærunefnd og langflestar þeirra, eða um 85%, koma frá fjórum fyrirtækjum. 

Fjallað var um útboðsmál spítalans á fundi Félags atvinnurekenda um útboðsmál í gær.

Frétt mbl.is: Vilja ekki kvarta en sjá um eftirlit

Halda um 25 útboð á ári

Í yfirlýsingu Landspítalans er bent á að spítalinn standi að meðaltali fyrir 25 útboðum á hverju ári ásamt fjölda verðfyrirspurna og annarra innkaupaleiða sem lög heimila. Eðli máls samkvæmt séu ríkisfyrirtæki og stofnanir sem á annað borð beita útboðum við innkaup mun líklegri til að fá á sig kæru en þau sem virða útboðsskyldu að vettugi. Á sama hátt séu stærri stofnanir eða fyrirtæki einnig líklegri til að fá á sig kæru. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nær væri að heimila frjálst flæði á vörum og þjónustu

Í yfirlýsingunni er málflutningi Guðlaugar Þórs Þórðarsonar, varaformanns fjárlaganefndar, frá því á fundinum í gær einnig mótmælt. Þar sagði Guðlaugur það vera alvarlegt mál ef Landspítalinn hafi ekki látið reyna á heim­ild nú­gild­andi laga til að taka þátt í útboðum er­lendra inn­kaupa­stofn­ana að und­an­gengnu sam­keppn­ismati.

Frétt mbl.is: Mjög alvarlegt ef spítalinn fór í fýlu

Landspítalinn segir að hafa verði í huga að lyfjakaup lúti mjög ströngu regluverki og sé því ekki hægt að bera þau saman við almenn vörukaup.

„Það kemur á óvart að helstu málsvarar persónu- og viðskiptafrelsis skuli, í þessu máli, leggjast á eitt um að takmarka frelsi ríkisaðila til að lágmarka kostnað samfélagsins af lífsnauðsynlegum lyfjum. Nær væri að afnema þau lagaákvæði sem hamla frjálsu flæði á vörum og þjónustu milli landa og stríða þannig gegn samningum um evrópska efnahagssvæðið,“ segir í yfirlýsingunni.

Vísað er til þess að Landspítalinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að fella niður 18. grein a) í lögum um opinber innkaup til að greiða fyrir möguleika Íslendinga til að taka þátt í útboðum á lyfjum og öðrum heilbrigðisvörum með öðrum þjóðum. 

Greinin skyldar opinberar stofnanir að útbúa sérstakt samkeppnismat, þ.e. mat á áhrifum slíkrar samvinnu á samkeppnisumhverfi viðkomandi vöru hérlendis,  vilji þær bjóða út innkaup sín á erlendum vettvangi.

Landspítalinn segir að íslensk fyrirtæki geti tekið þátt í útboðum …
Landspítalinn segir að íslensk fyrirtæki geti tekið þátt í útboðum erlendis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslensk fyrirtæki geta tekið þátt

Landspítalinn bendir á að með útboðum í samvinnu við erlendar innkaupamiðstöðvar sé á engan hátt verið að útiloka íslensk fyrirtæki frá þátttöku. Þessi fyrirtæki eigi alla möguleika á að taka þátt í útboðum erlendis. Þannig megi spara skattgreiðendum stórfé og þau félög sem standist samkeppni eins og hún gerist í nágrannalöndunum geti áfram sinnt sínum viðskiptum.

Landspítali ítrekar þá enn það álit sitt að það sé í anda heilbrigðrar samkeppni og hagkvæmra innkaupa að fella á brott umrædda 18. grein laga um opinber innkaup.

Hafa leitað eftir samvinnu um útboð

Landspítalinn segist ekki taka undir þá skoðun forstjóra Ríkiskaupa um að samkeppnismatið sé ekki jafn hamlandi og Landspítalinn hefur haldið fram.

„Síðustu ár hefur spítalinn, í samvinnu við Velferðarráðuneytið, unnið með öðrum Norðurlandaþjóðum að þróun innkaupasamvinnu. Oftar en einu sinni hefur verið falast eftir samvinnu annarra þjóða um útboð. Hingað til hefur ekki náðst samkomulag um slíkt þar sem hinir erlendu aðilar hafa talið 18. greinina vekja vafa um raunverulega heimild til slíks samstarf og litið svo á að sú samkeppnishindrun sem felst í íslensku lögunum geti skaðað þeirra eigin samkeppnisstöðu,“ segir Landspítalinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka