Landspítalinn bankar á rangar dyr

Guðlaugur segir að Landspítalinn hafi átt að leita til Ríkiskaupa.
Guðlaugur segir að Landspítalinn hafi átt að leita til Ríkiskaupa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir það farið að verða að reglu hjá forystumönnum Landspítalans að ráðast að stjórnmálamönnum sem ekki tala fullkomlega eftir þeirra höfði. Landspítalinn svaraði í gær gagnrýni Guðlaugar um útboðsmáls spítalans en Guðlaugur segir að meginatriðinu hafi ekki verið svarað. Ríkiskaup eigi að sjá um innkaupamál stofnana en ekki velferðarráðuneytið.

Að sögn Guðlaugs verður kallað eftir svörum frá spítalanum.

Ágreiningurinn snýr að fyrirhugaðri breytingu á lögum um opinber innkaup þar sem til stendur að fella út grein 18. grein a) sem kom inn í lögin árið 2011 og mælir fyrir um skyldu til að framkvæma svokallað samkeppnismat þegar farið er í útboð erlendis. Ákvæðið var sett inn að tillögu Samkeppniseftirlitsins sem taldi að útboð án samkeppnismats gætu raskað samkeppni hér á landi.

Í umsögn stofnunarinnar kom fram að hætta væri á að íslensk fyrirtæki hefðu ekki bolmagn til að taka þátt í svo umfangsmiklu útboði erlendis. Afleiðingin gæti þá orðið sú að íslenskur markaður fyrir viðkomandi vörur minnkaði og það gæti leitt til hærra vöruverðs og lakari þjónustu við aðra kaupendur en hið opinbera

Landspítalinn hefur mótmælt ákvæðinu og sagt það hindra möguleika Íslendinga á að taka þátt í útboðum erlendis. 

Dýr ákvörðun

Ekki náðist í Halldór Sigurðsson, forstjóra Ríkiskaupa við vinnslu fréttarinnar, en í samtali við Vísi fyrr á árinu sagði hann að Ríkiskaup hefðu aðstoðað aðrar ríkisstofnanir við að fara í sameiginlegt útboð með öðrum þjóðum eftir að lögin voru sett. Það hefði gengið ágætlega og að mikilvægt væri að stofnanir láti á heimildina reyna áður en þær ákveði að ákvæðið hamli þeim í að spara fjármagn hins opinbera. 

Guðlaugur Þór sagði í gær það vera alvarlegt mál ef forsvarsmenn spítalans hefðu bara farið í fýlu og ekki látið á ákvæðið reyna. Það gæti kostað mikla peninga. 

Frétt mbl.is: Mjög alvarlegt ef spítalinn fór í fýlu

Landspítalinn svaraði gagnrýninni í kjölfarið og sagðist ekki taka undir skoðun forstjóra Ríkiskaupa um að ákvæðið væri ekki hamlandi. Sagðist spítalinn hafa í samvinnu við velferðarráðuneytið leitað eftir samstarfi við aðrar þjóðir um útboð. Það hafi hins vegar ekki gengið upp.

Frétt mbl.is: Landspítalinn svarar fyrir sig

Eiga ekki að leita bara til velferðarráðuneytisins

„Það er gott og blessað að vera í samstarfi við velferðarráðuneytið en Ríkiskaup er sú stofnun sem sér um innkaup ríkisins,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.

„Ef þeir hafa ekki verið að nýta sér þjónustu Ríkiskaupa eru lögin ekki vandamálið. Þá hafa menn bara ekki verið að nýta sér þá sérfræðiaðstoð sem er til staðar,“ segir hann.

Í yfirlýsingu Landspítalans í gær sagði einnig að það kæmi á óvart að „helstu mál­svar­ar per­sónu- og viðskiptafrels­is skuli, í þessu máli, leggj­ast á eitt um að tak­marka frelsi rík­isaðila til að lág­marka kostnað sam­fé­lags­ins af lífs­nauðsyn­leg­um lyfj­um.“

„Ef menn vilja ræða aðkomu mína að því að auka frelsi í viðskiptum er af nógu að taka og þá sérstaklega í lyfjamálum,“ segir Guðlaugur og bætir við að góður árangur hafi náðst í að lækka lyfjakostnað í sinni heilbrigðisráðherratíð. „Og það hefði farið betur ef haldið hefði verið áfram með það sem samþykkt var í norrænu ráðherranefndinni um að hafa einn sameiginlegan lyfjaheildsölumarkað,“ segir hann.

Samkeppni skiptir máli

Guðlaugur segir gilda ástæðu fyrir því að Samkeppniseftirlitið kom með tillöguna sem varð að 18. gr. a) árið 2011. „Samkeppni skiptir máli. Jafnvel þótt einhver risi telji það vera aukaatriði og telji það ekki snúa að sínum hagsmunum, að þá er það þannig að samkeppni nýtist öllum og þar með talið Landspítalanum. Samkeppnislöggjöfin er ekki einungis sett vegna þess að menn hafa ekkert betra að gera.“

Aðspurður hvort hann vilji sjálfur halda greininni inni segist Guðlaugur ekki ætla að móta sér endanlega skoðun fyrr en skýr svör fást frá Landspítalanum. „Ef þeir hafa ekki nýtt sér þjónustu Ríkiskaupa eru lögin ekki vandamálið,“ segir hann.

Þá segir hann að allir hlutaðeigandi verði kallaðir fyrir fjárlaganefnd þegar að því kemur. „Það segir sig sjálft að það væri fullkomlega ábyrgðarlaust að fá ekki svör við þessum spurningum.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Guðlaugur segir að Landspítalinn eigi að leita sérfræðiþekkingar hjá Ríkiskaupum.
Guðlaugur segir að Landspítalinn eigi að leita sérfræðiþekkingar hjá Ríkiskaupum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK