Bandarísku fjárfestingafyrirtækin Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP, telja að með ákvæðum nýs frumvarps um aflandskrónur sé brotið gegn eignarrétti þeirra með bótaskyldum hætti. Þetta kemur fram í umsögn þeirra um frumvarpið.
Í umsögn sjóðanna sem skrifuð er af þeim Pétri Erni Sverrissyni hæstaréttarlögmanni og Magnúsi Árna Skúlasyni hagfræðingi kemur fram að sú eignarskerðing sem er í frumvarpinu geti á engan hátt talist almenn í þeim skilningi að hún nái til allra og flokkist þannig til þeirra skerðinga sem leiði ekki til bótaskyldu. Eru fyrirtækin sögð líta á sig með sömu stöðu og innlendir fjárfestar og bent á að fjárfestingafyrirtækin tvö hafi nú þegar lýst því yfir við stjórnvöld að þeir vilji halda fjárfestingum hér á landi áfram og sýnt þann vilja í orðum og verkum.
„Umbjóðendur okkar fá þannig ekki séð að þeir verði settir í sama flokk og aðrir „aflandskrónueigendur“ sem óska útgöngu við losun fjármagnshafta. Með öðrum orðum telja umbjóðendur okkar að staða þeirra sé sú sama og innlendra fjárfesta í þessu samhengi,“ segir í umsögninni.
Þá er litið svo á að með frumvarpinu sé ekki leitt í ljós að sérstakar aðstæður knýi á um þær aðgerðir sem frumvarpið boðar gagnvart fyrirtækjunum. „Jafnframt er ítrekað að umbjóðendur okkar hafa lýst því yfir að þeir vilja halda fjárfestingum sínum áfram hér á landi og m.a. óskað eftir undanþágu Seðlabankans í þeim efnum og fá þ.a.l. ekki séð að hinar sérstöku aðstæður eigi við í tilviki þeirra. Telja þeir þessa staðreynd enn fremur leiða til þess að skilyrði meðalhófsreglu teljist ekki uppfyllt í þeirra tilviki.“
Að mati fyrirtækjanna er með frumvarpinu ekki sýnt fram á að sú skerðing á eignarréttindum umbjóðenda okkar, sem frumvarpið hefur í för með sér, sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi, „enda sé með frumvarpinu gengið lengra í skerðingu á réttindum umbjóðenda okkar en nauðsynlegt er til að markmiðum frumvarpsins verði náð.“
Frumvarpið verður rætt á Alþingi í kvöld og hefst þingfundur klukkan 20.