Meðalverð á Airbnb-íbúð í Reykjavík er 12.899 krónur. Skráðar íbúðir eru alls 2.551 talsins og geta þær samtals hýst 9.923 gesti. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju gagnvirku korti er sýnir hlutdeild Airbnb í Reykjavík.
Ráðgjafafyrirtækið Expectus tók kortið saman en það byggir á gögnum frá Airbnb og upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Á kortinu má meðal annars bera saman meðalverð eftir hverfum og skoða í hvaða götum flestar íbúðir eru. Gögnin eru frá apríl 2016.
Hér má skoða kortið.
Langflestar íbúðir eru á Laugavegi, eða 102 talsins, og geta þær samtals hýst 318 gesti. Meðalverð á gistingu á Laugaveginum eru 11.285 krónur fyrir nóttina, eða um 3.611 krónur á hvern gest.
Næstflestar íbúðir eru á Hverfisgötu og er Grettisgata í þriðja sæti.
Þegar litið er til mismunandi hverfa í borginni má sjá að flestar íbúðir eru í miðborginni, eða alls 112,6 á hverja eitt þúsund íbúa. Samtals er pláss fyrir 3.419 gesti í Airbnb-íbúðum í miðbæ Reykjavíkur.
Vesturbærinn er næstvinsælastur og eru þar um 33,6 Airbnb-íbúðir á hverja eitt þúsund íbúa en þær geta samtals hýst 2.168 gesti.
Í skýrslu um ferðaþjónustuna sem Greining Íslandsbanka birti í mars sl. kom fram að skráð gistirými í Reykjavík voru alls 2.681 í lok nóvember á síðasta ári. Samkvæmt talningu Expectus hefur þeim fækkað lítillega á fimm mánaða tímabili. Frá nóvember 2014 til nóvember 2015 fjölgaði þeim hins vegar um 126 prósent.
Í sömu skýrslu kemur fram að á 12 mánaða tímabili frá og með nóvember 2014 voru heildartekjur aðila með skráð gistirými á Airbnb í Reykjavík um 2,22 milljarðar króna en tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabil námu 14,5 milljörðum króna. Nema tekjur í gegnum Airbnb yfir 12 mánaða tímabil því rúmlega 15 prósentum af þeim tekjum sem hótelmarkaðurinn aflaði á sama tímabili.
Frétt mbl.is: Airbnb gestgjafar með 2,2 milljarða
Samkvæmt þeim áformum sem hafa verið kynnt er gert ráð fyrir að hótelherbergjum í Reykjavík fjölgi samtals um 2.450 til ársins 2019 að því gefnu að öll verkefni komi til framkvæmda. Er það því nánast á pari við allar Airbnb-íbúðir í Reykjavík.
Í skýrslu Íslandsbanka kemur einnig fram að meðalverð á hótelherbergi í Reykjavík er um 80 til 100 evrur á nótt utan háannatíma, eða um 11 til 14 þúsund krónur. Á háannatíma er meðalverðið um 110 til 167 evrur, eða 15 til 23 þúsund krónur.
Líkt og áður segir er meðalverðið á Airbnb-íbúð í Reykjavík 12.899 krónur og þar með svipað meðalverði á hótelherbergi utan háannatíma.