Kauptilboð hefur verið samþykkt í Leigufélagið Klett ehf., dótturfyrirtæki Íbúðalánasjóðs. Félagið var stofnað árið 2013 utan um 450 leiguíbúðir sem voru í eigu sjóðsins en í byrjun nóvember á síðasta ári samþykkti meirihluti stjórnar sjóðsins að selja félagið þar sem eignarhald hans á því samrýmdist ekki lögbundnum langtímaverkefnum sjóðsins.
„Efnt var til opins söluferlis undir stjórn verðbréfafyrirtækisins Virðingar og reyndist mikill áhugi á meðal fjárfesta og annarra leigufélaga á að kaupa fyrirtækið. Leigufélagið Klettur ehf. var auglýst til sölu á almennum markaði 25. febrúar 2016. Skömmu síðar, 2. mars, var haldinn opinn kynningarfundur þar sem félagið og söluferlið, sem skiptist í tvo hluta, var kynnt. Alls bárust átta tilboð í fyrri hluta söluferlisins. Í seinni hlutanum var gefinn kostur á að skila skuldbindandi tilboðum og bárust þrjú slík tilboð í félagið. Það munaði 901 milljón kr. á hæsta og lægsta tilboði,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Hæsta tilboðið átti Almenna leigufélagið eignarhaldssjóður upp á rúmlega 10,1 milljarð króna. „Ljóst er að salan mun bæta fjárhagsstöðu sjóðsins en söluverðið er 1.541 milljón kr. hærra en bókfært virði félagsins hjá Íbúðalánasjóði. Almenna leigufélagið hefur skuldbundið sig til að halda umsaminni leigu núverandi leigutaka óbreyttri í að minnsta kosti 12 mánuði frá samþykkt kauptilboðs. Með kaupunum bætast 450 íbúðir við þær 550 sem Almenna leigufélagið er þegar með í almennri langtímaútleigu.“