Breski kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz hefur áform um að selja tíu Hilton-hótel í Englandi fyrir allt að 600 milljónir sterlingspunda, sem jafngildir um 110 milljörðum íslenskra króna.
Búist er við því að Tchenguiz selji hótelin hvert í sínu lagi. Stærsta eignin, sem verður líklegast seld fyrst, er 603 herbergja Kensington Hilton-hótelið í Lundúnum. Það er talið falt fyrir um 300 milljónir punda. Hin hótelin má finna víða um England, þar á meðal í Leeds, Northampton, Nottingham og Watford.
Tchenguiz keypti hótelin fyrst af Hilton-keðjunni árið 2002, þá 60% hlut, en síðan það sem eftir var árið 2006.
Hilton-keðjan mun þó áfram sjá um rekstur hótelanna til ársins 2029, samkvæmt óriftanlegum samningi þess efnis, að því er segir í frétt Sunday Times.
Greint var frá því í apríl að kröfu Tchenguiz á hendur Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, sem átti sæti í slitastjórn Kaupþings, hafi verið hafnað af breskum dómstól.
Tchenguiz sakaði Jóhannes Rúnar um að hafa komið upplýsingum með ólöglegum hætti til efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar (SFO) árið 2009 og krafðist hann 2,2 milljarða punda í skaðabætur. Sagði hann að Jóhannes Rúnar hefði með eigin hagsmuni í huga hvatt til rannsóknar SFO á Tchenguiz og félögum honum tengdum í tengslum við fall Kaupþings í október 2008.