Eiga ekki að sitja á hliðarlínunni

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir óhjákvæmilegt að lífeyrissjóðirnir beiti sér af fullu afli og í grundvallaratriðum með sams konar hætti og aðrir fjárfestar til þess að vernda hagsmuni sína í þeim fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í. Misráðið væri að reyna að draga úr virkni þeirra sem hluthafa.

Þetta kom fram í máli Páls á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallarinnar og Samtaka atvinnulífsins á Icelandair hótel Reykjavík Natura í morgun.

Páll sagði að uppbygging hlutabréfamarkaðarins hefði gengið mjög vel á síðustu árum. Tólf ný fyrirtæki hefðu verið skráð á markað, hlutafé selt fyrir 150 milljarða króna í aðdraganda nýskráninga og markaðsvirði skráðra hlutabréfa fimmfaldast á sex árum, í þúsund milljarða.

Það sem hefði öðru fremur gert þetta mögulegt væri fyrst og fremst fjármagn lífeyrissjóðanna, sem hefðu stutt dyggilega við uppbyggingu atvinnulífsins. Ávöxtun sjóðanna hefði endurspeglað þá endurreisn sem átt hefur sér stað í efnahagslífinu. Við gætum því verið sátt með frammistöðu sjóðanna.

40% í höndum lífeyrissjóða

En þessu stóra hlutverki lífeyrissjóðanna í uppbyggingunni fylgdu hliðarverkanir.

„Við búum við þær aðstæður að ríflega 40% af markaðsvirði skráðra hlutabréfa er í höndum lífeyrissjóða. Þetta er gríðarlega mikil breyting frá því sem var áður,“ sagði Páll. Stærstu lífeyrissjóðirnir væru nú mjög fyrirferðarmiklir en sá sjóður sem hefur mest verðmæti bundin í skráðum hlutabréfum ætti hlutabréf að verðmæti 108 milljarðar króna, sá næsti 75 milljarða og sá þriðji stærsti 73 milljarða.

Jafnvel þótt lífeyrissjóðirnir fjárfesti fyrir verulegar fjárhæðir erlendis á næstu árum, væri fyrirsjáanlegt að þeir yrðu áfram fyrirferðarmiklir þannig að umræða um heilbrigði markaðarins hlyti öðrum þræði að snúast um viðskiptahætti lífeyrissjóðanna, hvort þeir sæktust eftir áhrifum og hvernig þeir beittu áhrifum sinum.

Lífeyrissjóðirnir hafa verið fyrirferðarmiklir á hlutabréfamarkaði á undanförnum árum.
Lífeyrissjóðirnir hafa verið fyrirferðarmiklir á hlutabréfamarkaði á undanförnum árum. mbl.is/Þórður

„Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að í ljósi umfangs fjárfestinga lífeyrissjóðanna á markaði og þeirra ríku almannahagsmuna sem þeir gæta, þá sé óhjákvæmilegt að þeir beiti sér almennt af fullu afli og í grundvallaratriðum með sams konar hætti og aðrir fjárfestar til að vernda hagsmuni sína í þem fyrirtækjum sem þeir eiga eignarhlut í,“ sagði Páll.

Frá þessu gætu verið undantekningar en þetta væri engu að síður meginreglan. Þetta útilokaði að sjálfsögðu ekki að þeir ynnu í sátt og samlyndi við aðra hluthafa. Ef allt væri eðlilegt ætti svo að vera í flestum tilfellum en ekki væri óeðlilegt að gera ráð fyrir því að stundum slægi í brýnu á milli hluthafa. Þeir gætu einfaldlega haft mismunandi skoðanir á mönnum og málefnum.

Eiga ekki að sitja á hliðarlínunni

Miðað við umfang sjóðanna hér á landi væri einfaldlega óraunhæft að ætla þeim að sitja á hliðarlínunni. Í reynd gæti það þýtt að fjárfestar sem ættu tiltölulega lítinn eignarhlut í fyrirtækjum réðu lögum og lofum í þeim og færu óbeint með fé lífeyrissjóðanna. „Varla er umboð þeirra skýrara til að fara með þetta fé en lífeyrissjóðanna sjálfra?“ spurði Páll. Lífeyrissjóðirnir gætu vissulega selt bréf sín á markaði ef þeim líkaði ekki stefna fyrirtækisins, en það væri afar takmarkað úrræði.

Besta úrræðið væri að gera ríkar kröfur til sjóðanna, ríkari en nú eru gerðar.

„Sérstaða þeirra kallar á að meiri kröfur séu gerðar til þeirra en til annarra fjárfesta. Það verður að ramma inn starfsemi þeirra með mjög ákveðnum hætti,“ sagði hann. Það væri að nokkru leyti gert með lífeyrissjóðalögunum en því færi þó fjarri að þar væri tekið á öllum atriðum. Sjóðunum væri til að mynda í sjálfsvald sett hvort og þá hvernig þeir beita áhrifum sínum á markaði.

Hann nefndi að á undanförnum árum hefðu sjóðirnir endurskoðað hluthafastefnur sínar. Það væri jákvæð þróun. Engu að síður þyrfti, í ljósi vægis þeirra á markaði, að herða kröfurnar til þeirra enn frekar, til dæmis stjórnarhátta þeirra og vinnubragða á markaði.

Í þessu sambandi nefndi Páll nokkur atriði: 

Vill auka gegnsæi sjóðanna

Í fyrsta lagi að auka gegnsæi um stjórnarkjör. Leiðbeiningar um stjórnarhætti gerðu ráð fyrir því að fyrirtæki geti skipað svonefndar tilnefningarnefndir sem hafa það hlutverk að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu. Æskilegt væri að lífeyrissjóðirnir beittu sér fyrir því að slíkum nefndum yrði komið á og að kveðið yrði á um mikið gagnsæi í starfsemi þeirra.

Forstjóri Kauphallarinnar vill að gerðar verði ríkari kröfur til lífeyrissjóðanna …
Forstjóri Kauphallarinnar vill að gerðar verði ríkari kröfur til lífeyrissjóðanna og starfshátta þeirra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í öðru lagi þyrfti að gera þá kröfu til sjóðanna að þeir stigju meira inn í opinbera umræðu um mikilvæg mál sem varða umhverfi hlutabréfamarkaðar og starfshætti á markaðnum. Í þessu sambandi nefndi hann umræðuna um arðgreiðslur tryggingafélaganna. Að mati Páls hefði það verið fullkomlega eðlilegt, og jafnframt æskilegt, að tilteknir lífeyrissjóðir, sem stórir áhrifafjárfestar, hefðu viðrað opinberlega skoðanir sínar á þessum arðgreiðslum, ekki bara fjárhæðum þeirra eða hvort þeir væru andvígir eða fylgjandi þeim, heldur að þeir hefðu rökstutt afstöðu sína vandlega með tilliti til grundvallarsjónarmiða um eðlileg viðmið í arðgreiðslum.

„Lífeyrissjóðirnir eru einfaldlega þannig að þeir eru ekki venjulegir fjárfestar,“ sagði hann. Þeir ættu ekki aðeins að eiga í samskiptum við fjárfesta og hluthafa, heldur við markaðinn og jafnvel samfélagið í heild sinni.

„Ég tel að slík samskipti séu gríðarlega mikivægur liður í að skýra hvernig sjóðirnir standi vörð um hagsmuni sjóðfélaga.“

Auki valddreifingu í atvinnulífinu

Í þriðja lagi sagði Páll mikilvægt að lífeyrissjóðirnir mörkuðu sér skýra stefnu í samkeppnismálum, sem yrði þá hluti af hluthafastefnu þeirra. Nokkrir sjóðir væru meðal stærstu hluthafa í fyrirtækjum sem kepptu á sama markaði. Þetta væri trúverðugleikamál fyrir hlutabréfamarkaðinn og atvinnulífið.

Í fjórða lagi benti Páll á að á næstu árum væri reiknað með að eignir sjóðanna héldu áfram að vaxa en á sama tíma væri líklegt að sjóðunum fækkaði. 

„Spurningin er því sú: Mun þessi aukna samþjöppun þjóna atvinnulífinu eða lífeyrisþegum? Sjálfur er ég mjög efins um það. Eðli máls samkvæmt eru lífeyrissjóðirnir einsleitir fjárfestar og fjölbreytni þeirra er ekki líkleg til að aukast með aukinni samþjöppun.“

Það að beina stórum hluta sparnaðar fólks í gegnum svo einsleita fjárfesta skapaði ákveðna hættu á því að fjölbreytni fjárfestinga yrði minni en æskilegt væri og minni en ef fleiri kæmu að fjárfestingum.

Að mati Páls ættum við að íhuga alvarlega að gera ákveðnar breytingar á lífeyriskerfinu sem miði að því að auka valddreifingu í atvinnulífinu og ráðstöfunarrétt lífeyrisþega. Breytingarnar gætu falist í því að einstaklingar hefðu einfaldlega meira um það að segja sjálfir hvernig hluta lífeyrissparnaðar þeirra væri ráðstafað og gætu ákveðið sjálfir í hverju er fjárfest innan ákveðins þröngs ramma, fyrir milligöngu fjármálafyrirtækja. Brýnt væri að huga að leiðum til þess að draga úr miðstýringu á ráðstöfun lífeyrissparnaðar til lengri tíma í varfærnum skrefum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK