Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og stjórnarformaður Gildis lífeyrissjóðs, segir það algjörlega óhugsandi að lífeyrissjóðirnir séu ekki virkir hluthafar í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. Tryggja þurfi gagnsæi og vönduð vinnubrögð.
„Það gefur ótrúlega litlu hlutafé vægi ef þeir hafa engin afskipti af stefnumótun eða stjórnum fyrirtækja,“ sagði Þorsteinn á morgunarverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallarinnar og Samtaka atvinnulífsins á Icelandair hótel Reykjavík Natura í morgun.
Hann sagði að þróunin væri sú sama hér og annars staðar. Stofnanafjárfestar, líkt og lífeyrissjóðir, væru að verða sífellt stærri hluti af skráðum verðabréfamarkaði.
Það skipti miklu máli að tryggja gagnsæi og vönduð vinnubrögð, enda kæmu eigendur fjárins, sjóðsfélagar, ekki með beinum hætti að ákvarðanatökunni. Þorsteinn taldi margt jákvætt hafa gerst á undanförnum árum.
Lífeyrissjóðirnir hefðu nú til að mynda markað sér hluthafastefnur. Þær þyrftu að vera skýrar og gegnsæjar og þá þyrfti að vera alveg ljóst hvernig sjóðirnir ætli sér að vinna sem fjárfestar. „Ég held að við eigum eftir að sjá frekari skref í þeim efnum,“ sagði hann.
Auk þess benti hann á að það væri alveg rétt að myndun stjórnar í almenningshlutafélögum væri oft allt of tilviljunarkennd. Það væri jákvætt ef félög notuðust í auknum mæli við sérstakar tilnefningarnefndir.
„Á endanum skiptir gríðarlega miklu máli að um sé að ræða heildstæðan hóp með breiða þekkingu sem getur sinnt hlutverki sínu að veita stjórnendum fyrirtækisins stuðning og aðhald. Til þess þurfa þeir að hafa þekkingu og burði til þess að vera raunverulegur stuðningur, og raunverulegt mótvægi á köflum, við stjórnendur – geta spurt þeirra spurninga sem máli skipta.“
Fréttir mbl.is: