Donald Trump, væntanlegur forsetaframbjóðandi repúblikana, skrifaði undir fjárfestingasamning sem íslenska fjárfestingafélagið FL Group og alþjóðlega fasteignafélagið Bayrock Group gerðu sín á milli árið 2007. Markmiðið með fjárfestingunni, sem var síðar breytt í lán, er sagt vera að komast hjá skattgreiðslum í Bandaríkjunum.
Breska blaðið Daily Telegraph birti í dag ítarlega fréttaskýringu um viðskipti félaganna tveggja. Um var að ræða fimmtíu milljóna dala, sem jafngildir um 6,3 milljörðum króna, samning sem félögin gerðu sín á milli en í samningnum var gerð krafa um samþykki Donalds Trump.
Sem kunnugt er fjárfesti FL Group í fjórum fasteignaverkefnum í Bandaríkjunum árið 2007, þar á meðal í byggingu Trump Soho-turnsins. Það var gert í samstarfi við Bayrock Group.
Fréttaskýring Daily Telegraph byggist á gögnum sem fjölmiðillinn hefur undir höndum og varða viðskiptin. Í einu skjali kemur meðal annars fram að Trump hafi staðfest fjárfestingu FL Group í Bayrock í aprílmánuði 2007. Fáeinum vikum síðar var fjárfestingunni hins vegar breytt í lán.
Það hafi verið gert til þess að komast hjá milljóna dala skattgreiðslum í Bandaríkjunum. FL Group hefði þurft að greiða 40% skatt af fjárfestingunni, samkvæmt bandarískum skattalögum, en þar sem henni var breytt í lán þurfti félagið ekki að greiða neinn skatt.
Donald Trump samþykkti þessi viðskipti, eins og gögn Daily Telegraph sýna, með undirskrift sinni. Hann átti hlut í hótelverkefnunum, þar á meðal 15% hlut í hótelinu í Soho á Manhattan í New York.
Alan Garten, lögmaður hans, þvertekur þó fyrir það að Trump hafi komið nálægt viðskiptunum. Undirskrift hans staðfesti aðeins þátttöku hans sem lítils hluthafa í verkefnunum. „Hann var ekki að samþykkja neitt.“
Bayrock hefur jafnframt vísað ásökununum á bug og sagt þær tilhæfulausar. Bandarísk skattayfirvöld hefðu á sínum tíma farið yfir viðskiptin og ekki séð neitt athugavert við þau.
Fasteignaverkefnin sem um ræðir voru eftirtalin:
Trump Soho – Fimm stjörnu hótel í Soho-hverfinu á Manhattan í New York í samstarfi við Donald Trump og Sapir Organization.
Trump Lauderdale – Fimm stjörnu hótel á strönd Fort Lauderdale í samstarfi við Donald Trump.
Whitestone New York – Þróun þrettán ekru landsvæðis í Whitestone, Queens. Bayrock myndi í framhaldinu byggja fjölda lúxusíbúða á svæðinu.
Camelback – Fimm stjörnu hótel í Phoenix.
Í tilkynningu frá FL Group sagði að áætlað væri að verkefnunum yrði lokið innan þriggja ára. Fjárfestingin yrði fjármögnuð með eigin fé og lánsfé.
Í kauphallartilkynningu sem FL Group sendi frá sér árið 2007 var haft eftir Hannesi Smárasyni, þáverandi forstjóra fyrirtækisins, að samstarfið við Bayrock félli vel að stefnu FL. Þá stefnu sagði hann meðal annars miðast við leit að spennandi og ögrandi verkefnum: „Fasteignamarkaðurinn er spennandi vettvangur, þar sem mikil samkeppni ríkir en hann býður jafnframt upp á mörg og margvísleg tækifæri. Við hlökkum til samstarfsins við þetta virta fyrirtæki, bæði á Bandaríkjamarkaði og alþjóðlegum mörkuðum,“ sagði Hannes.
Kristján Kristjánsson, sem þá var upplýsingafulltrúi FL Group, sagði í samtali við Viðskiptablaðið 23. maí 2007 að Bayrock hefði verið aðaldrifkrafturinn í aðdraganda þess að fyrirtækin tvö hófu samstarf. Umfjöllun íslenskra fjölmiðla um samstarf FL Group og Bayrock var ekki mikil eða áberandi á sínum tíma.
FL Group dró sig úr verkefnunum árið 2008, sem og flestum fasteignaverkefnum sínum erlendis.