Selja bitcoin fyrir 1,5 milljarða

Bitcoin hefur ekki verið laus við vaxtarverki. Er kerfið núna …
Bitcoin hefur ekki verið laus við vaxtarverki. Er kerfið núna komið að þolmörkum? AFP

Áströlsk stjórnvöld hafa í hyggju að selja rafeyrinn bitcoin, sem lögreglan þar í landi hefur lagt hald á, að verðmæti átta milljónir sterlingspunda sem jafngildir 1,5 milljörðum íslenskra króna.

Rafeyririnn verður seldur hæstbjóðanda á uppboði í næsta mánuði. Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young mun hafa veg og vanda af uppboðinu.

Um er að ræða 24.518 einingar af rafeyrinum. Í tilkynningu frá uppboðshaldara kom fram að lögreglan hafi lagt hald á rafeyrinn í tengslum við glæparannsókn.

Sérfræðingar segja að stjórnvöld hafi valið góðan tíma til þess að selja einingarnar.

Fram kemur í áströlskum fjölmiðlum að lögreglan hafi lagt hald á 24.500 bitcoin-einingar í Victoriu árið 2013, í kjölfar handtöku manns sem er grunaður um að hafa verslað með ólögleg eiturlyf á netinu.

Lögreglan staðfesti þessar fregnir á síðasta ári.

„Þetta er töluvert magn af bitcoin,“ segir dr. Garrick Hileman, sagnfræðingur hjá Cambridge Centre for Alternative Finance, í samtali við breska ríkisútvarpið. Verðmæti þeirra sé gríðarlegt.

Um fjögur þúsund nýjar bitcoin-einingar koma á markað á dag um þessar mundir. Talið er að sala á tíu þúsund einingum hafi mikil áhrif á markaðsverð rafeyrisins.

Verð á bitcoin er nú 530 Bandaríkjadalir og hefur ekki verið svo hátt frá því í ágúst 2014.

Hileman segir að áströlsk stjórnvöld hafi valið „öruggan“ tíma til þess að selja rafeyrinn því það væri nokkur óvissa um hvert verðmæti bitcoin yrði í júlí.

Um er að ræða fyrsta uppboðið á bitcoin sem fram fer fyrir utan Bandaríkin. Hver sem er getur tekið þátt og lagt inn tilboð.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK