Áströlsk stjórnvöld hafa í hyggju að selja rafeyrinn bitcoin, sem lögreglan þar í landi hefur lagt hald á, að verðmæti átta milljónir sterlingspunda sem jafngildir 1,5 milljörðum íslenskra króna.
Rafeyririnn verður seldur hæstbjóðanda á uppboði í næsta mánuði. Endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young mun hafa veg og vanda af uppboðinu.
Um er að ræða 24.518 einingar af rafeyrinum. Í tilkynningu frá uppboðshaldara kom fram að lögreglan hafi lagt hald á rafeyrinn í tengslum við glæparannsókn.
Sérfræðingar segja að stjórnvöld hafi valið góðan tíma til þess að selja einingarnar.
Fram kemur í áströlskum fjölmiðlum að lögreglan hafi lagt hald á 24.500 bitcoin-einingar í Victoriu árið 2013, í kjölfar handtöku manns sem er grunaður um að hafa verslað með ólögleg eiturlyf á netinu.
Lögreglan staðfesti þessar fregnir á síðasta ári.
„Þetta er töluvert magn af bitcoin,“ segir dr. Garrick Hileman, sagnfræðingur hjá Cambridge Centre for Alternative Finance, í samtali við breska ríkisútvarpið. Verðmæti þeirra sé gríðarlegt.
Um fjögur þúsund nýjar bitcoin-einingar koma á markað á dag um þessar mundir. Talið er að sala á tíu þúsund einingum hafi mikil áhrif á markaðsverð rafeyrisins.
Verð á bitcoin er nú 530 Bandaríkjadalir og hefur ekki verið svo hátt frá því í ágúst 2014.
Hileman segir að áströlsk stjórnvöld hafi valið „öruggan“ tíma til þess að selja rafeyrinn því það væri nokkur óvissa um hvert verðmæti bitcoin yrði í júlí.
Um er að ræða fyrsta uppboðið á bitcoin sem fram fer fyrir utan Bandaríkin. Hver sem er getur tekið þátt og lagt inn tilboð.