Eftir einungis einn mánuð verða eldri útgáfur af tuttugu, fimmtíu og þúsund króna seðlum í Svíþjóð alfarið teknir úr umferð og þar með ógildir. Um 2,6 milljarðar sænskra króna, eða um 39 milljarðar íslenskra króna, eru þó enn þá í umferð í formi þessara seðla.
Sænski Seðlabankinn hefur því blásið til herferðar þar sem rithöfundurinn Selma Lagerlöf, söngkonan Jenny Lind og fyrrverandi Svíakonungurinn Gustav Vasa virðast eftirlýstir glæpamenn. Andlit þeirra prýða fyrrnefnda seðla.
Seðlabankinn hóf að innkalla seðlana í október sl. og hafa Svíar skilað inn um 4,9 milljörðum sænskra króna, eða 73,5 milljörðum íslenskra króna. Líkt og áður segir eru þó enn þá það sem jafngildir 39 milljörðum íslenskra króna í umferð, eða um 57 milljónir seðla.
Auglýsingarnar verða birtar á veggspjöldum, í dagblöðum og sjónvarpi á næstu vikum.
„Við viljum hverja alla í Svíþjóð til þess að greiða fyrir vörur með þessum seðlum eða leggja þá inn í banka fyrir 30. júní. Við vonumst til að „Eftirlýst!“-herferðin minni fólk á að kíkja í veskið og á aðra staði þar sem seðlarnir gætu verið,“ er haft eftir Ann-Leena Mikiver, talskonu sænska seðlabankans, á heimasíðu bankans.
Á nýja 20 króna seðlinum er rithöfundurinn Astrid Lindgren, á 50 króna seðlinum er tónlistarmaðurinn Evert Taube og á 1.000 króna seðlinum er Dag Hammarskjöld, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.