Nokkrar lagabreytingar er snúa að heimagistingum voru samþykktar á Alþingi í gær. Hægt verður að sekta þá sem leigja út heimili sitt án skráningar. Sektarfjárhæðin er á bilinu eitt þúsund til ein milljón króna og fer upphæðin eftir alvarleika brotsins.
Frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, til breytinga á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, var samþykkt á Alþingi í gær.
Frétt mbl.is: Verður heimilt að leigja út í 90 daga
Samkvæmt breytingunum er fólki heimilt að leigja út lögheimili sitt og aðra eign til viðbótar í allt að níutíu daga á ári hverju. Þessar eignir mega þó ekki vera í sama hverfi heldur er með þessu átt við að fólk geti t.d. leigt út sumarhús sitt og lögheimili. Heildarleigutíminn má þó einungis vera níutíu dagar og gildir það hvort sem um er að ræða leigu einnar eða tveggja eigna.
Einu kröfurnar sem verða settar fyrir útleigu eru þær að viðkomandi skrái sig hjá sýslumanni, greiði skráningargjald og að fasteignin uppfylli brunakröfur. Skráningargjaldið fyrir heimagistingu nemur átta þúsund krónum. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af þessu gjaldi geti orðið í kringum tólf til sextán milljónir króna á ári samkvæmt lauslegum áætlunum ráðuneytisins. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að um 1.500 til 2.000 íbúðir séu skráðar á hverju ári.
Fólk verður beitt sektum ef það leigir eign sína út lengur en í níutíu daga eða skráir ekki eignina. Skiptir þá engu hvort brotið er framið af gáleysi eða ásetningi.
Samanlagðar tekjur af leigu eigna mega ekki vera meiri en tvær milljónir króna á hverju ári. Ef eign er leigð í heila níutíu daga má nóttin þannig að hámarki kosta um 22 þúsund krónur til þess að tekjurnar fari ekki yfir tveggja milljóna króna viðmiðið. Séu næturnar færri getur gjaldið verið hærra.
Greiddur er tuttugu prósenta fjármagnstekjuskattur af þessum leigutekjum.
Samkvæmt nýlegum tölum er meðalverð á Airbnb-íbúð í Reykjavík 12.899 krónur. Skráðar íbúðir eru alls 2.551 talsins og geta þær samtals hýst 9.923 gesti.
Sýslumenn munu hafa eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum, svo sem varðandi skráningarskyldu, tímalengd útleigu í heimagistingu og skil á nýtingaryfirliti. Sýslumenn munu geta leitað atbeina lögreglu við eftirlit.