Bernhöftsbakarí missir húsnæði sitt á næstunni og er eigandi þess hræddur um að málið gæti lagt 182 ára gamla fyrirtækið að velli.
Bernhöftsbakarí hefur verið í núverandi húsnæði að Bergstaðastræti 13 frá árinu 1983 en sjálft fyrirtækið er 182 ára gamalt í ár. Fyrirtækið tapaði máli gegn eigendum húsnæðisins fyrir Hæstarétti Íslands í gær og verður því væntanlega borið út á næstunni.
Bakaríið hefur endurnýjað leigusamning sinn reglulega á síðustu 33 árum en upphaflega stóð til að bera það út árið 2011 þegar síðasti leigusamningur rann út. Þá náðust hins vegar samningar um kaup Bernhöftsbakarís á húsnæðinu og skrifað var undir kaupsamning með fyrirvörum í febrúar 2012. Sigurður Már Guðjónsson, bakari og eigandi bakarísins, bendir á að eigandi húsnæðisins hafi þá lækkað leiguna og tekið athugasemdalaust við henni í þrjú ár. Til stóð að ganga síðar endanlega frá kaupunum.
„Síðan snýst honum hugur,“ segir Sigurður og bætir við að eigandinn, B13 ehf., hafi sjálfur ekki efnt fyrirvara sem félagið setti sjálft í kaupsamninginn. Á þeim grundvelli mat Hæstiréttur kaupsamninginn ógildan. Var félaginu því heimilt að segja upp „leigusamningi“ Bernhöftsbakarís í stað þess að efna kaupsamninginn.
Aðspurður segir Sigurður að fyrirvararnir hafi snúið að viðbyggingu við bakaríið. Ætlun seljanda var að koma á eignaskiptasamningi þannig að viðbyggingin yrði að séreign sem yrði seld síðar í sértöku lagi. Ekki fékkst hins vegar leyfi til þess.
Sigurður segir lögfræðing sinn hafa verið vongóðan um að samningurinn myndi halda. Hæstiréttur hafi þó greinilega verið á annarri skoðun og neyðist hann því til að endurmeta stöðuna. Hann segist ekki vita hvenær hann þurfi að rýma húsnæðið.
Aðspurður um næstu skref bendir Sigurður á að slegist sé um húsnæði í miðbænum. „Það bíður enginn eftir þér en kannski fellur eitthvað upp í hendurnar á okkur,“ segir hann.
Viðskiptavinir bakaríssins virðast slegnir yfir fréttunum að sögn Sigurðar og hafa einhverjir litið við í dag og fært starfsfólkinu blóm. „Fólk er mjög leitt yfir þessu þar sem við erum búin að vera hluti af sögu Reykjavíkur lengur en elstu menn muna,“ segir Sigurður.
Sjálfur segist hann sorgmæddur yfir málinu og er hræddur um að það gæti lagt fyrirtækið að velli. „Við höfum reynt að vera leiðandi í því að bjóða sanngjarnt verð og höfum ekki verið að skila miklum hagnaði með því að keyra á túristaverðum. Við höfum reynt að vera sanngjörn og sýna samfélagslega ábyrgð. En svo er maður bara ekki heppnari en þetta,“ segir Sigurður.
Ekki er ljóst hvað kemur í húsnæðið í staðinn fyrir bakaríið.