Laundromat byggir skóla í Nepal

Þorpsbúar eru ánægðir með skólann og gáfu Friðrik blómakrans og …
Þorpsbúar eru ánægðir með skólann og gáfu Friðrik blómakrans og settu á hann rauðan punkt á ennið. Mynd/Friðrik Weisshappel

The Laundromat stendur að byggingu grunnskóla fyrir níutíu börn í litlu þorpi í Nepal. Að sögn eigandans Friðriks Weisshappel verða einnig keyptir skólabúningar á börnin auk þess sem enskukennari verður fenginn til starfa og ætlar Laundromat að greiða honum laun. Heildarkostnaðurinn nemur rúmlega fjórum milljónum króna.

Mannskæður jarðskjálfti af stærðinni 7,9 skók Nepal 25. apríl í fyrra. Þúsundir fórust og miklar skemmdir urðu á mannvirkjum. Meðal þeirra var grunnskóli í Simpani-þorpinu í Gorkha-héraði sem varð fyrir miklum skaða og hafa börnin síðan þurft að sækja kennslu í bráðabirgðaskýlum sem lítið þola.  

Friðrik á og rekur þrjú Laundromat-kaffihús í Kaupmannahöfn og eitt í Reykjavík. Annað bætist þó fljótlega við þar sem unnið er að opnun nýjustu viðbótarinnar að Laugarásvegi 1. Hann segir nepalska starfsmenn hafa unnið á kaffihúsum sínum í Kaupmannahöfn og bætir við að margir þeirra hafi orðið fyrir áhrifum vegna skjálftans. Í ljósi þess og annarra atburða í veröldinni langaði Friðrik einfaldlega að hjálpa til. „Við vildum gera eitthvað alvöru í stað þess að henda bara peningum í einhverja söfnun,“ segir hann.

Sterkbyggðari skóli

Nepal lá beint við sökum tengsla í gegnum starfsmennina og segir Friðrik að ákvörðun varðandi skólann hafi fljótlega legið fyrir. Hann fór síðan sjálfur til Nepal ásamt nepölskum starfsmanni Laundromat til að skoða aðstæður. „Þetta var erfið ferð en jafnframt mjög gefandi. Það hafði mikil áhrif að sjá eyðilegginguna með berum augum,“ segir hann.

Mikil stéttaskipting er í Nepal og segir Friðrik að hið svokallaða lægsta samfélagsstig búi í þessu þorpi. „Börnin eiga nánast ekki neitt. Þau eru bara í skólabúningunum sínum vegna þess að það eru fötin sem þau eiga,“ segir hann.

Nýi skólinn verður sterkbyggðari en sá eldri og segir Friðrik að hann sé byggður til að þola mögulega jarðskjálfta auk þess sem hátt er til lofts og gluggar snúa í allar áttir til þess að hægt sé að njóta útsýnisins.

Einn Laundromat-staður er í Austurstræti en annar verður bráðlega opnaður …
Einn Laundromat-staður er í Austurstræti en annar verður bráðlega opnaður að Laugarásvegi 1. mbl.is/Árni Sæberg

Gamli skólinn verður samkomustaður

Það sem eftir er af gamla skólanum verður þá einnig nýtt. Friðrik bendir á að við hliðina á skólanum sé svokallað Peeple-tré sem kennt er við guðinn Vishnu, líkt og önnur af sömu tegund í Nepal. Hefð er fyrir því að byggja pall í kringum trén sem notaður er sem griðastaður þar sem þorpsbúar geta hvílst í skugganum í nálægð við guðinn. Enginn pallur var hins vegar í kringum þetta tiltekna tré og var því ákveðið að endurnýta efnið úr gamla skólanum í byggingu á einum slíkum. „Þorpsbúar hafa í dag enga aðstöðu til að fagna afmælum, brúðkaupum eða hittast á bæjarfundum. Okkur datt því hug að búa til nýtilegan samkomustað fyrir þá.“

Grunnur lagður að skólanum og börnin standa við hlið bráðabirgðaskólans …
Grunnur lagður að skólanum og börnin standa við hlið bráðabirgðaskólans sem var starfræktur í skýlum. Mynd/Friðrik Weisshappell

Fá skólabúning til skiptanna

Friðrik segir markmiðið vera að halda skólanum gangandi til fjölda ára og ætlar hann að útvega hverjum nemenda tvo skólabúninga til að eiga til skiptanna auk þess sem enskukennari verður ráðinn. Enginn slíkur var í fyrri skólanum og verður það nýjung fyrir börnin. Skólastjórnin sem var yfir eldri skólanum tekur við rekstrinum og verður kennari frá Nepal ráðinn í starf enskukennara.

Stefnt er að því að opna skólann í október eða nóvember og segir Friðrik að mikilvægt hafi verið að hefja framkvæmdir snemma  til að koma byggingarefnum örugglega á svæðið áður en monsúnregntíminn skellur á. Lélegir fjallavegir liggja að þorpinu og verða þeir ófærir í miklum rigningum.

Skólinn hrundi í jarðskjálfta í fyrra og hefur kennslan farið …
Skólinn hrundi í jarðskjálfta í fyrra og hefur kennslan farið fram í þessum skýlum síðan. Mynd/Friðrik Weisshappel

Fylgjast vel með ferlinu

„Spillingin þarna er gríðarleg og því fórum við í gegnum fjölskyldutengsl starfsmannsins sem ferðaðist með mér. Við gátum þá talað beint við skólastjóra og bæjarfulltrúa og náðum þannig að tryggja að peningarnir færu beint í þessi verkefni,“ segir hann. „Við sáum síðan myndir og reikninga sem nepalskir starfsmenn fara yfir,“ segir Friðrik og bætir við að sorglegt hafi verið að horfa upp á miklar verðhækkanir í byggingargeiranum í Nepal undanfarið. „Þeir sem selja byggingarefni sáu sér leik á borði í eymdinni eftir skjálftann og hækkuðu verð á öllu,“ segir hann.

Pallur sem þessi verður byggður í kringum tréð við skólann. …
Pallur sem þessi verður byggður í kringum tréð við skólann. Efni úr gamla skólanum verður nýtt í verkið. Mynd/Friðrik Weisshappel

Nauðsynlegt að setja kostnaðinn í rétt samhengi

Heildarkostnaðurinn með ferðalögum, byggingu skólans, skólabúningum og enskukennara nemur rúmlega fjórum milljónum á næstu þremur árum að sögn Friðriks. „Það er náttúrulega mikið fé sama hvernig á það er litið,“ segir hann. „Þetta eru öll heimsins auðæfi fyrir þau en fyrir okkur sem lifum í allsnægtasamfélaginu á Íslandi eða í Danmörku er þetta ekki stór upphæð.“

Þorpsbúar gáfu Friðrik hana að gjöf en honum var slátrað …
Þorpsbúar gáfu Friðrik hana að gjöf en honum var slátrað næsta dag. Mynd/Friðrik Weisshappel

Friðrik segir ferðina hafa verið mjög gefandi og að þakklæti þorpsbúa hafi verið ógleymanlegt en þeir sýndu það meðal annars með því að færa Friðriki lifandi hana að gjöf. „Þetta var það sem þau áttu til að gefa. Það var engin vínflaska eða blóm heldur bara lifandi hani. Haninn var það flottasta sem þau gátu gefið,“ segir hann. Aðspurður um örlög hanans segir hann að dýrinu hafi verið slátrað og var það snætt daginn eftir. „Það var ekkert annað í stöðunni,“ segir Friðrik og bæti við að þar hafi reynslan frá kjúklingabúinu Sveinbjarnargerði í fyrri tíð nýst vel.

Gott fyrir „karma heimsins“

Friðrik fer aftur til Nepal í vetur til að opna skólann og ætlar hann þá að taka dætur sínar með sem eru fimm og átta ára gamlar. „Mig langar að sýna þeim hvernig stór hluti jarðarbúa býr og nota þetta uppeldistækifæri,“ segir hann. „Mig langar að sýna þeim að iPaddarnir, maturinn á borðinu og nýju skórnir eru ekki sjálfsagðir hlutir fyrir stóran hluta heimsins,“ segir Friðrik.

Skólinn er sterkbyggðari en sá fyrri. Hátt er til lofts …
Skólinn er sterkbyggðari en sá fyrri. Hátt er til lofts og gluggar snúa í allar áttir til að nemendur geti notið útsýnisins. Mynd/Friðrik Weisshappel

„Síðan get ég vonandi farið með þær aftur sem fullorðnar konur eða táninga að hitta börnin sem tala þá kannski ensku vegna þess að við borguðum fyrir þau enskukennara,“ segir hann. „Við erum mjög stolt og þakklát fyrir að geta gert þetta. Það skiptir ekki öllu máli hvar fyrirtæki gefur samfélaginu til baka, heldur bara að það sé gert,“ segir Friðrik. „Mér finnst orðið samfélagsleg ábyrgð vera mikil klisja en við erum kannski að gera eitthvað gott fyrir karma heimsins með þessu,“ segir Friðrik.

„Þetta hefur núna áhrif á níutíu börn og ef allt gengur eftir stendur þessi skóli í fjölda ára. Þá getur maður sagt með einhverju stolti að maður hafi tekið þátt í að mennta börn sem munu gera heiminn að betri stað,“ segir Friðrik að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK