Starfsfólk Nóa Síríus óraði ekki fyrir vinsældum pipar Nóa kroppsins sem einungis átti að vera í boði í takmörkuðu magni. Öll sumarframleiðslan kláraðist í maí og er núna unnið á næturvöktum til að svara eftirspurn á hverjum tíma.
Nói Síríus hefur í gegnum tíðina boðið upp á ýmsar nýjungar tengdar Nóa kroppinu í takmörkuðu upplagi og má þar til dæmis nefna piparmyntu- og karamellukropp. Nýjasta viðbótin er piparkroppið sem virðist hafa runnið nokkuð ljúflega ofan í landann.
Fyrirtækið lagði upp í sumarið með framleiðsluáætlun fyrir piparkroppið. Heildarmagnið átti að duga út sumarið og ekki átti að framleiða meira. Þegar það kláraðist átti þetta einfaldlega að vera búið. Svo fór hins vegar að öll framleiðslan kláraðist í maí. Silja Mist Sigurkarlsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Nóa, segir eftirspurnina vægast sagt hafa verið framar björtustu vonum.
„Við gerðum veglega framleiðsluáætlun en það kláraðist allt 20. maí. Allt sumarið,“ segir Silja. „Það kom okkur algjörlega í opna skjöldu.“
Spurð um framhaldið í þessu ljósi segir Silja að verið sé að skoða hvort piparkroppið verði varanlegur hluti af vöruúrvali fyrirtækisins. „Við höfum bara haldið okkur við venjulega Nóa kroppið hingað til en það hefur aldrei komið önnur eins vara sem jafnmikil eftirspurn hefur verið eftir,“ segir hún. „Við munum klárlega skoða hvort við ættum að halda áfram með það og jafnvel halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta á Facebook-síðunni okkar,“ segir hún.
Í ljósi þess að sumarframleiðslan kláraðist í lok maí var viðbótarframleiðsla áætluð og gerð. Hún kláraðist hins vegar á mánudaginn síðasta. Önnur var síðan send út í dag og Silja segir ómögulegt að áætla framhaldið. „Þetta bara spænist út og við höfum ekki undan sama hversu mikið við áætlum. Það er bara strax farið og við eigum ekkert til á lager. Við erum voðalega ánægð með okkar neytendur,“ segir Silja létt í bragði.
Sumarfrí hjá Nóa Síríus eru fram undan og afkastageta verksmiðjunnar er takmörkuð á meðan. „Ég er núna að vinna í framleiðslutillögum fyrir sumarið og að skoða hvernig við ætlum að tækla næstu mánuði. Júní er rétt hálfnaður og við eigum enn þá heila tvo mánuði eftir sem við gerðum ekki ráð fyrir að framleitt yrði fyrir,“ segir hún.
Sælgætisæðið virðist ekki takmarkast við piparkroppið heldur hefur mikil spurn verið eftir öðrum nýjungum á borð við rjómasúkkulaði með kremkexi og saltkaramellu-súkkulaði, sem er fyrsta súkkulaðið til að verða vinsælla en hefðbundna rjómasúkkulaðið.
Til þess að anna þessari eftirspurn og ná utan um sumarfríið eru starfsmenn komnir á næturvaktir í verksmiðjunni og er því unnið allan sólarhringinn að því að sinna nammiþörf Íslendinga.