Bergur Einarsson, skipstjóri á Hoffelli SU, er tekjuhæstur meðal sjómanna og útgerðamanna samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun. Laun hans námu í fyrra 4,6 milljónum á mánuði, en í fyrra var hann í öðru sæti listans með tæplega 3,9 milljónir. Í öðru sæti er Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, með tæplega 4,6 milljónir í tekjur á mánuði.
Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er í þriðja sæti listans með tæplega 4,4 milljónir á mánuði og Kristinn Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartans SU 111, er í fjórða sæti með rúmlega 4,3 milljónir í mánaðartekjur. Fimmti á lista er Daði Þorsteinsson, skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni, með 4,1 milljón á mánuði.
Í blaðinu er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er tekið fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. „Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum,“ segir í blaðinu.
Magnús Ómar Sigurðsson, skipstjóri í Fjarðarbyggð, sem var efstur í fyrra með 4,1 milljón á mánuði er nú í 11. sæti með 3,6 milljón á mánuði.
Tekjur efstu manna á listanum hækka nokkuð milli ára og eru meðaltekjur efstu 20 á listanum yfir sjómenn og útgerðarmenn 3,77 milljónir í ár, samanborið við 3,17 milljónir í fyrra. Í ár fara sjö menn á listanum yfir 4 milljónir í mánaðartekjur, en í fyrra var það aðeins einn sem náði því marki.