Bónusgreiðslur og kaupaukar að byrja aftur

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun.
Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Laun hæst launuðu forstjóra fyrirtækja hér á landi fylgdu launaþróun frá árinu 2014 til 2015 á meðan tekjur hæst launuðu starfsmanna fjármálafyrirtækja gerðu það ekki. Þetta sést þegar tölur úr tekjublaði Frjálsrar verslunar eru skoðaðar. Þá vekur athygli að laun í flokknum ýmsir menn úr atvinnulífinu lækka milli ára.

Á milli áranna 2014 og 2015 var meðaltalsbreyting launavísitölu 7,2% og ef horft er til breytingarinnar milli janúar 2015 og janúar 2016 nemur hækkunin 9,4%.

Laun þeirra sem skipa efstu sæti á launalistum Frjálsrar verslunar sést að talsvert flökt er milli ára og eru mestu stökkin fram og til baka vegna nýtingar á kaupréttarsamningum eða bónusgreiðsla. Það getur því reynst erfitt að horfa á meðaltal launa þar sem einn eða fleiri einstaklingar sem hækka mikið milli ára geta haft talsverð áhrif. Hér verður því frekar notast við miðgildi launa á efstu 50 og efstu 100 einstaklingum hvers hóps.

Tekjur forstjóra hækka örlítið umfram launavísitölu

Þegar flokkurinn forstjórar er skoðaður sést að miðgildi tekna hjá 50 tekjuhæstu forstjórunum var 4.101 þúsund krónur á síðasta tekjuári. Árið áður voru þær aftur á móti 3.716 þúsund og hafa því hækkað um tæplega 400 þúsund milli ára. Nemur hækkunin 10,3%. Þegar miðgildi af tekjum 100 tekjuhæstu forstjóranna er skoðað nemur það 3.202 þúsund krónum á síðasta tekjuári, en var þar áður 2.930 þúsund krónur. Nemur hækkunin 270 þúsund krónum eða 9,3%. Hækkun þessa hóps hefur því fylgt launaþróun og jafnvel verið örlítið meiri.

Bankastarfsmenn halda ekki í við launaþróun

Í flokki starfsmanna fjármálafyrirtækja var miðgildi tekna hjá 50 tekjuhæstu starfsmönnunum 2.826 þúsund á síðasta tekjuári og hækkaði milli ára úr 2.706 þúsund krónum. Nemur hækkunin 4,4% eða 120 þúsund milli ára. Svipaða sögu er að segja þegar 100 tekjuhæstu starfsmennirnir eru skoðaðir. Nemur hækkunin þar 4,3% eða 100 þúsund krónum. Launaþróun þessa hæst launaða hóps í fjármálageiranum fylgdi því ekki launaþróun á síðasta ári.

Í flokknum ýmsir menn úr atvinnulífinu sést að miðgildi launa tekjuhæstu 50 einstaklinganna hefur lækkað um rúmlega 6%. Miðgildi síðasta tekjuárs er 2.541 þúsund, en var fyrir ári síðan 2.707 þúsund. Nemur lækkunin 166 þúsund krónum. Þegar 100 tekjuhæstu einstaklingar hópsins eru skoðaðir sést að miðgildið lækkaði úr 2.110 þúsund í 2.055 þúsund milli ára, en lækkunin nemur 2,6%.

Efstu menn hækka mikið

Þrátt fyrir þessa lækkun eru heildar greiðslur í fyrri tveimur hópunum talsvert hærri. Þannig voru mánaðartekjur 50 tekjuhæstu forstjóranna 330 milljónir á síðasta ár og hækkuðu úr 252 milljónum. Nemur sú hækkun 30,5%. Þetta helgast aðallega af því að tekjur efsta hópsins hækkuðu gífurlega. Þannig fóru meðaltekjur efstu 10 forstjóranna úr 10,4 milljónum í 16 milljónir. Eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is skýrist það meðal annars að einhverju leyti af hærri bónusgreiðslum eða nýtingu kaupréttasamninga.

Sama er upp á teningnum þegar tekjur starfsmanna fjármálafyrirtækja eru skoðaðar. Þar raðast efst stjórnendur ALMC, sem áður hét Straumur, en starfsmenn hans fengu háar bónusgreiðslur á árinu. Þannig eru fjórir af fimm efstu á listanum sem tengjast félaginu. Meðaltekjur þeirra á árinu voru 29,3 milljónir á mánuði, en sá sem var hæst launaði starfsmaður fjármálafyrirtækis í fyrra var með 5,1 milljón á mánuði.

Bónusgreiðslur og kaupaukar að byrja aftur

Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, segir í samtali við mbl.is að greinilegt sé að menn séu í auknum mæli farnir að nýta kauprétti og fá bónusgreiðslur. „Þarna er maður að sjá að það er augljóst hjá þessum toppum að um er að ræða einhverskonar bónusgreiðslur eða hlutabréfaívilnanir,“ segir hann. „Það var mikið um kaupaukakerfi á bóluárunum fyrir 2008, svo dró úr þessu. Það eru ákveðnar vísbendingar um að þessi kaupaukakerfi séu að byrja aftur í einhverjum fyrirtækjum,“ segir Jón.

Í tekjublaðinu er birt­ur listi yfir tekj­ur rúm­lega 3.725 Íslend­inga. Könn­un­in bygg­ist á álögðu út­svari eins og það birt­ist í álagn­ing­ar­skrám. Frjáls versl­un árétt­ar að í ein­hverj­um til­vik­um kann að vera að skatt­stjóri hafi áætlað tekj­ur.

Í tekju­blaði Frjálsr­ar versl­un­ar er tekið fram að um út­vars­skyld­ar tekj­ur á ár­inu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að end­ur­spegla föst laun viðkom­andi. „Mun­ur­inn get­ur fal­ist í laun­um fyr­ir setu í nefnd­um og önn­ur auka­störf og hlunn­indi vegna kauprétt­ar­samn­inga. Jafn­framt hafa marg­ir tekið út sér­eign­ar­sparnað en hann telst með í út­svars­skyld­um tekj­um,“ seg­ir í blaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK