Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er tekjuhæstur í flokki fjölmiðlafólks með 3,6 milljónir í tekjur á mánuði. Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri og ritstjóri Morgunblaðsins, er í öðru sæti með 2,4 milljónir á mánuði. Páll Magnússon, fyrrverandi Útvarpsstjóri og núverandi þáttastjórnandi er í þriðja sæti með 2,2 milljónir í mánaðartekjur. Þetta kemur fram í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun.
Ragnhildur Sverrisdóttir, kynningarfulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar er fjórða á listanum með 1,9 milljón á mánuði. Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Vefpressunnar og DV er í fimmta sæti listans með tæplega 1,9 milljón á mánuði.
Í blaðinu er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er tekið fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. „Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum,“ segir í blaðinu.
Meðal annarra fjölmiðlamanna sem finna má á listanum eru Ómar R. Valdimarsson, fréttamaður Bloomberg, með 1,7 milljón og í sjöunda sæti, Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður á RÚV með 1,4 milljón og í áttunda sæti og Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, með 1,4 milljón á mánuði.
Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður á Stöð 2, var í fyrra með 1,1 milljón í tekjur á mánuði, Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV með 1 milljón og Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu með tæplega eina milljón. Þá er Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar með 991 þúsund og Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður á RÚV, með 858 þúsund.