Þegar tekjur 450 forstjóra hér á landi eru skoðuð má sjá að meðallaun karla eru 2.238 þúsund krónur á mánuði en kvenna 1.423 þúsund. Þannig eru forstjóralaun kvenna aðeins um tveir þriðju hlutar þess sem karlar fá. Þetta kemur fram í tölum sem Frjáls verslun birtir upp úr gögnum sínum sem notuð voru í tekjublaðið í ár.
Af þeim 450 forstjórum sem voru skoðaðir í ár voru 74 konur og 376 karlar. Launatekjur 200 efstu forstjóranna eru 2,6 milljónir króna og hækkuð um 8,3% á milli ára og reynast innan við hækkun launavísitölunnar. Fjöldi forstjóra með yfir 3 milljónir kr. á mánuði jókst frá í fyrra og er núna 62 borið saman við 48 í fyrra.
Munurinn er einnig talsverður í flokki starfsmanna fjármálafyrirtækja og flokki næstráðenda, þótt hann sé mestur meðal forstjóra.
Frjáls verslun skoðaði tekjur 340 starfsmanna í fjármálafyrirtækjum. Þar af voru 85 konur og 255 karlar. Meðallaun kvennanna voru 1.523 þúsund krónur, en karlarnir voru með 2.116 þúsund. Nemur munurinn 28%.
Í flokki næstráðenda voru skoðaðar tekjur 600 manns. Voru það 183 konur og 417 karlar. Meðallaun kvennanna voru 1.320 þúsund krónur en karlanna 1.670 krónur. Nemur munurinn 21%.
Frjáls verslun bendir á að þessi verulegi munur starfi meðal annars af því að konur eru síður í stöðu æðstu stjórnenda í stórfyrirtækjum.