Óttar Pálsson, lögmaður á lögfræðistofunni Logos og stjórnarmaður í ALMC, sem áður hét Straumur, er tekjuhæsti lögfræðingur landsins með 26,2 milljónir á mánuði. Þetta kemur fram í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun.
Í blaðinu er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er tekið fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. „Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum,“ segir í blaðinu.
Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Fossa markaða og fyrrverandi yfirlögfræðingur MP Straums er önnur á listanum með 9,9 milljónir í tekjur á mánuði. Þröstur Ríkharðsson, hæstaréttarlögmaður hjá Meritas er í þriðja sæti með 4,4 milljónir á mánuði.
Ragnar Björgvinsson, héraðsdómslögmaður og lögfræðingur hjá Glitni er fjórði á listanum með 4 milljónir í tekjur á mánuði.
Karl Axelsson hæstaréttardómari er í 15. sæti listans með 2,1 milljón í tekjur á mánuði og Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, er í 17. sæti með 2,1 milljón. Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður er í 20. sæti með 2 milljónir á mánuði og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari og hæstaréttarlögmaður hjá Veritas lögmönnum, er í 21. sæti.
Uppfært kl 14:19: Í upphaflegri frétt mbl.is kom fram að Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og eigandi lögfræðistofunnar Draupnis, væri tekjuhæsti lögfræðingur landsins með 28,8 milljónir í mánaðartekjur. Um villu hjá Frjálsri verslun reyndist að ræða og hefur fréttin verið uppfærð samkvæmt því.